Nammidagur - hugum að sykurmagninu

Í flestum matvöruverslunum og nær öllum sjoppum landsins er mikið framboð af sælgæti. Þar eru alla jafna stórir sælgætisbarir sem fanga athyglina og börnin sem þangað koma horfa löngunaraugum á litadýrðina. Margir foreldrar reyna að stemma stigu við sælgætisneyslu barnanna með því að hafa ákveðið skipulag á sætindaáti, t.d. sérstakan nammidag aðeins einu sinni í viku.

Ef ákveðið er að hafa sælgæti í boði einu sinni í viku er nauðsynlegt að skammta sælgæti þann daginn svo sælgætisneyslan fari ekki úr böndunum. Ákveðnir stórmarkaðir hafa tekið upp þann leiða sið að veita 50% afslátt af sælgæti á laugardögum en samkvæmt markaðslögmálum hvetur það til meiri neyslu, sem var ef til vill alveg meiri en nóg fyrir.

Sykurneysla íslenskra barna er mikil en næringargildi sykurs er nánast ekkert. Mikið sykurát getur valdið skorti á nauðsynlegum næringarefnum, þ.e. þegar sykraðar matvörur koma í stað annarra hollari matvara. Meðalorkuþörf 9-10 ára barna er um 2000 kcal á dag. Samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni1 er miðað við að viðbættur sykur sé innan við 10% af hitaeiningaþörf en það samsvarar að hámarki um 50 g af sykri á dag. Könnun á mataræði barna2 sem Manneldisráð vann fyrir nokkrum árum síðan sýndi að þau börn sem borðuðu mestan viðbættan sykur fengu minna af kalki, járni, próteinum og vítamínum en önnur börn: sykurinn kemur einfaldlega í staðinn fyrir hollan mat. Því meira sem börnin fá af viðbættum sykri, því minna er af grænmeti, ávöxtum, trefjaríkum kornmat, mjólkurvörum, fiski og kjöti, matvörum sem gefa holla næringu.

 

Sykurmagn í sælgæti

Ef ákveðið er að hafa einn nammidag í viku ætti sælgæti að vera ekki í boði hina dagana, að öðrum kosti verður nammidagur að hreinni viðbót.

Veltum fyrir okkur sykurmagninu í 100 grömmum af sælgæti. Sykurmagn í sælgæti

Sælgætismagnið á myndinni er 100 g af „blandi í poka" sem veitir um 50 g af viðbættum sykri. Hámarks sykurneyslu dagsins fyrir barn á aldrinum 9-10 ára er þar með náð. Ef hálfur lítri af gosdrykk er drukkinn með bætist annað eins magn af sykri við.

 

 

Litarefni í sælgæti og gosi og hugsanleg tengsl við ofvirkni

Niðurstöður nýlegrar breskrar rannsóknar Lancet3 gefa til kynna að hugsanlega finnist tengsl milli ofvirkni hjá börnum og ákveðinna litar- og rotvarnarefna sem notuð eru í matvælaiðnaði. Þessi efni fá börn aðallega úr gos- og svaladrykkjum auk sælgætis. Þekkt tengsl eru á milli sykurneyslu og tannskemmda. Að drekka gos- og svaladrykki, að meðtöldum íþrótta- og orkudrykkjum, oftar en þrisvar sinnum í viku eykur hættu á glerungseyðingu. Þessar staðreyndir gefa enn frekar tilefni til þess að takmarka neyslu barna á umræddum vörum.

Elva Gísladóttir
verkefnisstjóri næringar

Heimildir

1 Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Lýðheilsustöð, 2006.

2. I. Þórsdóttir og I. Gunnarsdóttir Hvað borða íslensk börn og ungmenni? Rannsókn á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga 2003-2004.Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahús, 2006.

3. McCann A, et al. Food additives and hyperactive behaviour in 3-year-old and 8/9-year-old children in the community: a randomised, double-blinded, placebo-controlled trial. The Lancet. 2007;370(9598):1560-67.


Fyrst birt 04.11.2008

<< Til baka