Bragðbættir vatnsdrykkir - eru þeir allir hollir?

Sjá stærri myndSjá stærri myndSjá stærri mynd

Mikilvægt er að halda tönnunum heilbrigðum og liður í því er að þekkja það sem hefur áhrif á tannheilsuna.Vatn er besti svaladrykkurinn, eins og allir vita, og óhætt er að drekka vel af því. Í vatni er engin orka og það er því ákjósanlegasti drykkurinn til að viðhalda vökvajafnvægi líkamans.

Við búum við þau forréttindi að geta drukkið vatnið beint úr krananum og bragðgæðin eru mikil. Í vatni er enginn viðbættur sykur, engin sætuefni, engin sítrónusýra (E330), engin rotvarnarefni og engin bragðefni. Sýrustig vatns er pH=7,0, eins og munnvatns, og því eyðir það ekki glerungi tannanna.

Kolsýrt vatn

Góður valkostur til viðbótar við kranavatnið er kolsýrt vatn (sódavatn) ef það inniheldur einungis kolsýru (pH=5,92 - mynd 1) eða kolsýru og bragðefni (pH=4,17 - mynd 2), en kolsýra hefur engin glerungseyðandi áhrif.

Glerungseyðing

Flestir svaladrykkir á íslenskum markaði hafa hins vegar glerungseyðandi áhrif og gildir það jafnt um ávaxtasafa (pH:1,98-3,95), gosdrykki (pH: 2,48-3,14) , íþróttadrykki (pH: 2,78-3,28), orkudrykki (pH: 2,56-2,90) sem og hluta vatnsdrykkja. Glerungseyðing er skilgreind sem eyðing glerungs af völdum efnafræðilegra ferla, óháð bakteríum. Vel er þekkt að mikil og tíð neysla áðurnefndra svaladrykkja getur leyst upp glerung tannanna og glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi.

Hvað er í bragðbættum vatnsdrykkjum?

Bragðbættum vatnsdrykkjum hefur verið stillt upp sem mótvægi við gos-, íþrótta- og orkudrykkjum og þeir eru markaðssettir sem „hollara val". Það á við ef valið er kolsýrt vatn (sódavatn) sem inniheldur einungis kolsýru (eins og á mynd 1) eða kolsýru og bragðefni (eins og á mynd 2). En margt bendir til þess að ef sítrónusýra (E330) er í vatnsdrykknum þá séu glerungseyðandi áhrif þeirra svipuð - og síst minni - en annarra svaladrykkja (eins og á mynd 3). Flestir drekka vatnsdrykki á svipaðan hátt og aðra svaladrykki; sopið er á flöskunni öðru hvoru þar sem bragðgæðin halda sér með áskrúfuðum tappa. Munnvatnið verndar tennurnar en verndunarmáttur þess verður lítill ef „súr" vatnsdrykkur fær að „baða" tennurnar með jöfnu millibili. Því er nauðsynlegt að skoða innihaldslýsingu drykkjanna, til að vera viss um að rétti drykkurinn sé valinn - tannanna vegna. Drekkum vatn sem oftast og stundum kolsýrt vatn, með eða án bragðefna, en sem sjaldnast með sítrónusýru (E330).

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir 

Lýðheilsustöð

Heimildir

Þorbjörg Jensdóttir, Inga Þórsdóttir, Inga B Árnadóttir, W. Peter Holbrook. „Glerungseyðandi drykkir á íslenskum markaði" Læknablaðið 2002:88;569-72

Kynning á fyrstu niðurstöðum Munnís rannsóknar 31. janúar 2007,

Sólveig A Þorvaldsdóttir, Jón H Sigurjónsson, Heiðdís Halldórsdóttir, Ása M Eiríksdóttir, Birgir Björnsson, Jóhanna B Bjarnadóttir, Inga B Árnadóttir, W. Peter Holbrook. Glerungseyðing og gosdrykkir. Tannlæknablaðið 2008


Fyrst birt 12.11.2008
Síðast uppfært 03.11.2017

<< Til baka