Hófleg og óhófleg neysla áfengis

Sjá stærri mynd

Neysla áfengis hefur verið við lýði á Íslandi frá upphafi byggðar, með öllu því sem henni fylgir. Því er eðlilegt að fólk spyrji hvort ekki sé óhætt að neyta áfengis í hófi - en við þeirri spurningu er ekkert einfalt svar. Vegna þess hve líkaminn bregst misjafnlega við áfengi er erfitt að segja ákveðið til um hættulaus mörk áfengisneyslu.

Þeir sem neyta áfengis þurfa að vera meðvitaðir um þá líkamlegu- og félagslegu áhættu sem fylgt getur áfengisneyslu; því meira magn áfengis sem drukkið er, því meiri hætta. Að auki er kynjamunur á því hvernig líkaminn bregst við áfengi, meðal annars út frá líffræðilegum orsökum þola konur áfengi verr en karlar. Konur eru yfirleitt minni og léttari en karlar. Þær hafa minna vatn í líkamanum en vatn þynnir út áfengið. Þá hafa þær minna af ensími sem brýtur niður áfengi svo það hverfi úr líkamanum.

Skaði

Víða erlendis hafa verið gefin út viðmið fyrir bæði kynin um hvað teljast megi hófdrykkja en hérlendis hafa slík viðmið ekki verið sett með formlegum hætti. Markmið með slíkum viðmiðum er ekki að segja til um hvað sé æskilegt magn að drekka heldur gefa hugmynd um hvar mörkin gætu legið og þá hættu á heilsuskaða sem getur fylgt því að fara yfir viðmiðin.

Neyslumynstur fólks er mismunandi; annars vegar getur verið um að ræða að mikið magn af áfengi sé drukkið í hvert skipti sem áfengis er neytt og hins vegar drykkju yfir langt tímabil en minna áfengismagns neytt í hvert skipti. Einnig getur neyslumynstrið verið blanda af þessum tveimur þáttum, þ.e. tíð ölvunardrykkja og að áfengis sé neytt þess á milli. Vegna þessa er talað um skammtíma- eða langtímaskaða vegna áfengisneyslu. Þegar mikils áfengis er neytt á skömmum tíma geta skaðleg áhrif m.a. verið slys eða áverkar vegna falls eða ofbeldis, óvarið kynlíf eða áfengiseitrun. Skaðleg áhrif reglulegrar áfengisneyslu yfir langt tímabil geta hins vegar verið ýmsir sjúkdómar s.s. krabbamein, sykursýki, skemmdir á heila, lifur og brisi. Í Talnabrunni má sjá nýjustu umfjöllun um áfengisnotkun fullorðinna Íslendinga.

Engin áfengisneysla

Fólk í ákveðnum hópum ætti ekki að neyta áfengis, þar er m.a. átt við barnshafandi konur, þá sem eru á lyfjum s.s. verkjastillandi, svefnlyfjum, krampalyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum og öllum lyfjum með rauðum þríhyrning og þá sem áður hafa neytt áfengis óhóflega. Fólk með sjúkdóma ætti að fara að ráðleggingum læknis varðandi áfengisneyslu. Og síðan er vert að ítreka að samkvæmt 18. gr. áfengislaga er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Lögunum er m.a. ætlað að vernda heilsu ungs fólks því áfengisneysla hefur sérstaklega skaðleg áhrif þegar líkaminn er enn að þroskast og þessi hópur á því alls ekki að neyta áfengis.

Áfengisneysla hefur áhrif á fleiri en neytandann

Neysla áfengis hefur áhrif á heilsu neytandans, dómgreind og hæfileika til að framkvæma af skynsemi. Það er því ærin ástæða til að vera meðvitaður um eigin áfengisneyslu og sýna þar skynsemi - einnig vegna annarra. Áfengisneysla er nefnilega ekki einkamál þess sem neytir áfengis; hún hefur oftar en ekki líka áhrif á vini og vandamenn, sem og samfélagið allt.

Áfengi er engin venjuleg neysluvara og það þarf að umgangast hana sem slíka. Sé áfengis einungis neytt stöku sinnum og í hófi má finna þau menningartengdu áhrif sem oftast er sóst eftir og minnka líkur á skaðlegum afleiðingum áfengisneyslu.

 

Rafn Jónsson
verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna


Fyrst birt 26.11.2008

<< Til baka