Sannir karlmenn hugsa um heilsuna

Reynslan sýnir að karlmenn huga ekki jafn vel að heilsu sinni og lifnaðarháttum og konur. Hér eru eru nokkrar staðreyndir og góð ráð fyrir karla sem halda vilja góðri heilsu og líðan.

Tannheilsa

Hreinar og heilar tennur bæta líðan en skemmdum tönnum og bólgnu tannholdi fylgir vanlíðan. Tannheilsa karla er almennt lakari en kvenna; minni tími fer í munnhirðu og árvissu tanneftirlit er ábótavant. Sykur skemmir tennur og karlar drekka mikið af gosdrykkjum, íþrótta- og orkudrykkjum. Í drykkjunum eru, auk sykurs, ávaxtasýrur og rotvarnarsýrur sem geta leyst upp glerung tannanna. Draga má úr tannsjúkdómum og styrkja tennurnar með því að bursta tennurnar tvisvar á dag með flúortannkremi, ekki skola munninn á eftir, og nota tannþráð daglega.

Mataræði

Það sem við borðum hefur mikil áhrif á heilsuna. Karlmenn eru hvattir til að halda þyngdinni innan marka, borða meira af grænmeti, ávöxtum, grófum kornvörum og baunum, en draga úr neyslu á orkuríkum mat og sykruðum drykkjum, unnum kjötvörum og harðri fitu (mettaðri fitu og transfitusýrum), sem eru einkum í mjólkurvörum, smjöri, smjörlíki, kjöti, kexi, kökum, snakki og sælgæti. Mikil neysla mjólkurvara getur hugsanlega tengst auknum líkum á að fá blöðruhálskrabbamein. Körlum er því ráðlagt að neyta ekki mikið meira en tveggja skammta af mjólk og mjólkurmat á dag og velja fituminni og lítið sykraðar vörur.

Hreyfing

Allir þurfa á reglulegri hreyfingu að halda til að viðhalda og bæta afkastagetu lungna, hjarta og æðakerfis, sem og vöðvastyrk, liðleika og samhæfingu. Hreyfing er ekki síður mikilvæg fyrir andlega og félagslega vellíðan - og hún hjálpar til við að halda holdafarinu í skefjum. Með reglulegri hreyfingu er hægt að hægja á einkennum og áhrifum öldrunar og sporna við fjölmörgum sjúkdómum. Minnst 30 mínútur af daglegri hreyfingu fullorðinna ætti að vera miðlungserfið (t.d. röskleg ganga eða hjólreiðar) en meiri hreyfingu fylgir aukinn ávinningur fyrir heilsu og vellíðan.

Geðrækt

Þegar andleg vanlíðan herjar á virðast karlar eiga erfiðara en konur með að skilgreina líðan sína og leita sér aðstoðar. Algengara er að þeir auki áfengisneyslu. Einkenni þunglyndis á líkama og sál eru margþætt: allt virðist dapurt og þungt og ánægja yfir því sem áður þótti eftirsóknarvert dvín, ákvarðanataka verður óörugg og félagsleg einangrun vex. Truflun verður á svefni, matarlyst og kynlífsáhugi fer þverrandi. Sjálfsvígshugsanir geta gert vart við sig. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkir, magaverkir, verkir almennt, tregar hægðir og svitaköst. Nauðsynlegt er að taka einkennin alvarlega og leita sér aðstoðar fagfólks, sérstaklega ef þau eru langvarandi og trufla daglegt líf.

Áfengi

Karlar drekka að meðaltali 46 sinnum á ári og rúmlega 5 drykki í hvert sinn, en litið er á 5 drykki eða meira sem viðmið um skaðlegt drykkjumynstur. Einu jákvæðu áhrif áfengisneyslu, sem tekist hefur að finna, eru verndandi áhrif á ákveðna hjarta- og æðasjúkdóma - en einungis hjá körlum og konum yfir 45 ára og þá aðeins ef ekki er drukkið meira en 1 glas (10g) á dag, karlar, og ½ glas (5g), konur. Langvarandi áfengisneyslu fylgir m.a. skorpulifur, brisbólga, getuleysi ásamt lakari framleiðslu á sæði, hækkun blóðþrýstings, skemmdir á hjartavöðva, svefntruflanir, kvíði, þunglyndi og krabbamein í meltingarvegi og þörmum.

Reykingar

Reykingar hafa margvísleg áhrif á líkamsstarfsemi karla á öllum aldri. Flestir þekkja tengslin við lungna- og hjartasjúkdóma en ekki endilega aðrar hugsanlegar afleiðingar, eins og getuleysi og minni frjósemi. Getuleysi er algengara meðal karla sem reykja. Langvarandi miklar reykingar geta valdið óafturkræfum æðaskemmdum í getnaðarlimnum en heilbrigði æðanna er nauðsynleg forsenda þess að halda fullri reisn. Reykingar virðast líka geta haft áhrif á sæði karlmanna, sem aftur leiðir til minni frjósemi. Vandfundnari er ein aðgerð sem er eins áhrifarík til að bæta heilsuna og sú að hætta að reykja.

Bára Sigurjónsdóttir, Elva Gísladóttir, Gígja Gunnarsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Rafn Jónsson, verkefnastjórar


Fyrst birt 14.01.2009

<< Til baka