Notum skólatöskuna rétt

Skólataskan spilar stórt hlutverk í lífi barns sem stundar skóla. Nauðsynlegt er að nemendur, foreldrar og samfélagið í heild sé meðvitað um áhrif rangrar notkunar skólatöskunnar á líkamlega heilsu barna og ungmenna þar sem stoðkerfisvandi er vaxandi vandamál í nútíma samfélagi.

 

Létta leiðin er rétta leiðin

En hvað skiptir máli varðandi skólatökuna?

 

Að pakka/raða í skólatösku:

  • Veljið rétta stærð af tösku fyrir bak barnsins.
  • Ekki er æskilegt að barn beri tösku sem vegur meira en 10% af líkamsþyngd.
  • Setjið þyngstu hlutina sem næst baki barnsins og raðið þannig að hlutir séu stöðugir og renni ekki til.
  • Farið daglega yfir það sem barnið ber með sér í og úr skóla. Gætið þess að barnið beri einungis þá hluti sem nauðsynlegir eru þann daginn.
  • Þá daga sem taskan er yfirhlaðin getur barnið t.d. borið íþróttatöskuna í fanginu; þá er minna álag á bakið.
  • Foreldrar geta aðstoðað börn sín við að raða í töskuna og hjálpað til við að stilla hana; þá eru minni líkur á álagseinkennum.

 

Að stilla skólatösku:

  • Báðar axlarólar skulu ávallt vera notaðar. Að bera töskuna á annari öxlinni getur valdið því að hryggsúlan sveigist og haft í fór með sér sársauka og óþægindi.
  • Veljið skólatösku með vel bólstruðum axlarólum. Í öxlum og hálsi eru margar æðar og taugar. Ef mikill þrýstingur er á þessi svæði getur það valdið sársauka og dofa í hálsi, handleggjum og höndum.
  • Stillið axlarólar þannig að taskan liggi þétt við bak barnsins. Brjóst- og mittisól á alltaf að nota en þær dreifa þunga töskunnar jafnt á líkamann og tryggja að axlarólar sígi ekki niður af öxlum.
  • Neðsti hluti töskunnar á að hvíla við mjóbakið. Taskan á aldrei að ná lengra en 10 cm fyrir neðan mitti. Taskan ætti ekki að vera breiðari en efri hluti baks til að hindra ekki eðlilegar hreyfingar handleggja.

 

Skólatöskudagar

Sem lið í að aðstoða grunnskólanemendur á landinu í því að læra hvernig best sé að hafa skólatöskuna þá bjóða iðjuþjálfar upp á fræðslu á svokölluðum Skólatöskudögum. Fræðslan fer fram víðs vegar um landið dagana 22.-26. september 2008.

Auk fræðslu fyrir nemendur, foreldra og kennara þá fá nemendur fá að vigta skólatöskurnar sínar og reikna út hvort skólataskan sé af æskilegri þyngd miðað við þeirra eigin líkamsburði.

Allir eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri.

Helga Kristín Gestsdóttir

iðjuþjálfi 

Iðjuþjálfarafélag Íslands 


Fyrst birt 26.01.2009

<< Til baka