Öryggi skólabarna í umferðinni

Þessa dagana eru mörg lítil börn að stíga sín fyrstu skref í skólastarfinu og jafnframt í umferðinni á leiðinni skólann sinn. Bent hefur verið á mikilvægi þess að börn á Íslandi hreyfi sig almennt meira og liður þar í er að þau gangi til og frá skóla. Að auki hefur margoft verið bent á hættuna sem stafar af þeirri miklu umferð sem foreldrar, sem eru að aka börnum sínum, orsaka við skólana. Hlutverk foreldra í að skapa börnum sínum heilbrigt og öruggt umhverfi á leið til og frá skóla er því mjög mikið og mikilvægt.

Foreldrar þurfa að vega og meta aðstæður hverju sinni og þar skiptir aldur barnsins mjög miklu máli sem og þær umferðargötur sem liggja að skólanum. Yngstu skólanemarnir geta að sjálfsögðu ekki farið einir í skólann, sérstaklega ekki fyrst í stað, og þurfi þeir að fara langa leið og yfir umferðarþungar götur þá þarf alltaf að fylgja þeim í skólann. Þeir sem aftur á móti eiga stutta leið fyrir höndum og þurfa ekki að fara yfir hættulegar götur ættu að geta gengið sjálfir þegar foreldrar eru búnir að kenna þeim að fara örugga gönguleið.

Alltaf þarf þó að hafa í huga að lítil börn geta ekki metið hætturnar í umhverfi sínu og það fer því eftir þroska hvers og eins barns hvenær það er tilbúið að ganga sjálft í skólann. Síðast en ekki síst er svo bent á mikilvægi þess að börnin séu með endurskinsmerki á útifatnaði sínum.

Börnum ekið í skólann
Þeir sem aftur á móti telja nauðsynlegt að aka barni sínu í skólann verða að vera meðvitaðir um þá hættu sem þeir eru að skapa öðrum börnum með því að vera að auka á umferð við skólann með akstri sínum. Rauði þráðurinn þar hlýtur að vera að aka ekki hratt og að sýna sérstaka varúð. Einkum þarf m.a. að vera vel á verði fyrir börnum sem allt í einu skjótast yfir götu ? jafnvel beint fyrir framan bílinn, að stöðva bílinn á meðan barninu er hleypt út, þar sem ekki stafar hætta af honum fyrir önnur börn eða umferð. Talsvert hefur á þetta skort og agaleysi og tillitsleysi ökumanna við skóla er stundum ótrúlegt. En með góðum vilja er allt hægt að bæta og nokkrir skólar eru til fyrirmyndar hvað varðar aðstöðu til að stöðva ökutæki við skólann.

Farið á reiðhjólið
Fram eftir hausti og svo aftur þegar vorar kjósa margir stálpaðir nemendur að koma á hjóli í skólann og þar gildir það sama og um þá gangandi: það þarf í upphafi að hjálpa þeim að finna öruggastu leiðina í skólann, að allur búnaður hjólsins sé samkvæmt reglum og virki, sjá til þess að nemendurnir kunni umferðarreglurnar og virði þær? Og síðast en ekki síst þá verða allir hjólreiðamenn að vera með hjálm.

 

Bryndís Kristjánssdóttir
sviðsstjóri samskipta, Lýðheilsustöð

Herdís Storgaard
verkefnisstjóri, Lýðheilsustöð

Birtist í Mbl. 4. september 2004

 

 


Fyrst birt 06.09.2004
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka