Tengslin milli líkamlegrar og andlegrar heilsu

Sjá stærri mynd

Margir þurfa á einhverjum tímapunkti í lífi sínu að takast á við alvarleg líkamleg veikindi. Bæði veikindin og sú meðferð sem beitt er geta haft áhrif á hugsun og líðan og alla þætti daglegs lífs á einn veg eða annan.

Alvarleg veikindi geta valdið því að við verðum sorgmædd, óttaslegin, kvíðin eða reið. Fyrir sum okkar getur andleg vanlíðan, sem fylgir alvarlegum líkamlegum veikindum, orðið mjög þrúgandi. Krabbamein, hjartasjúkdómar og sykursýki geta t.d. valdið miklum kvíða og þunglyndi sem aftur getur hindrað daglegar athafnir okkar. Þetta getur m.a. leitt til óvirkni, einangrunar og hreyfingarleysis, sem svo aftur hefur neikvæð áhrif á líkamlega heilsu.

Allir hafa geðheilsu. Líkamlegir, andlegir og félagslegir þættir heilsunnar hafa áhrif hver á annan. Við ákveðnar aðstæður er eðlilegt að finna fyrir depurð, reiði, sektarkennd, kvíða eða ótta en þegar þessar tilfinningar vara lengi, án gildrar ástæðu, getur það verið merki um geðheilsuvanda sem bregðast þarf við.

Sleppum grímunni!

,,Sleppum grímunni" er slagorð alþjóðageðheilbrigðisdagsins á Íslandi og er vonast til að það veki fólk til umhugsunar um það hversu mikilvægt er að viðurkenna raunverulega líðan sína - bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Af ótta við fordæmingu samferðafólks síns er alltof algengt að fólk setji upp grímu - sem sýnir allt annað en raunveruleikann - og viðurkenni ekki né sýni að andleg líðan er langt í frá góð. Fordómar í garð geðrænna veikinda eru því miður enn ríkjandi hjá okkur og gera það að verkum að margir veigra sér við að sýna sitt rétta andlit. Stundum leiðir þetta því miður til þess að gripið er til örþrifaráða þegar fokið er í flest skjól og engin útgönguleið sjáanleg.

Þegar betur er að gáð kemur oftar en ekki í ljós að þó nokkuð margar leiðir eru færar til að takast á við vandann. Fyrsta skrefið er að viðurkenna að um vanda sé að ræða. Spyrja sig t.d. hvers vegna erfiðara sé að viðurkenna að maður eigi við geðrænan sjúkdóm að stríða heldur en sjúkdóm á borð við sykursýki, hjartasjúkdóm eða krabbamein? Þegar þetta skref hefur verið tekið þá er það næsta að leita sér aðstoðar eins og maður myndi varla hika við að gera ef um líkamlega vanlíðan væri að ræða. Má þar t.d. benda á heilsugæsluna og bráðamóttökur geðdeilda Landspítala-háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hjálparsími Rauða Kross Íslands 1717býður einnig upp á ókeypis þjónustu og ráðgöf allan sólarhringinn fyrir þá sem eiga við andlega örðugleika að stríða eða eru í sjálfsvígshugleiðingum.

 

Að lokum má benda á geðorðin tíu sem hjálpað geta til að halda góðri geðheilsu:

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara.
2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um.
3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir.
4. Lærðu af mistökum þínum.

5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina.

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu.
7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig.
8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup.
9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína.
10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast.

 

Guðbjörg Daníelsdóttir 

sálfræðingur og verkefnisstjóri Alþjóða geðheilbrigðisdagsins

Guðrún Guðmundsdóttir 

hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri Geðræktar

 

 


Fyrst birt 11.10.2004
Síðast uppfært 15.06.2012

<< Til baka