Fólasín er nauðsynlegt - fyrir konur á barneignaraldri

Rannsóknir sýna að ef konur taka fólasín daglega 4 vikum fyrir þungun og á fyrstu 12 vikum meðgöngu dregur það úr líkum á miðtaugakerfisgöllum (s.s. klofnum hrygg) um meira en helming. Hér á Íslandi greinast 5-6 tilvik af slíkum göllum á hverju ári. Þar sem heili og mæna eru í mótun fyrstu vikur meðgöngu skiptir miklu máli að vítamínið sé tekið snemma. Til að koma í veg fyrir sem flest tilvik er mikilvægt að allar konur á barneignaaldri taki fólasín en ekki eingöngu þær sem ráðgera þungun.

Fólasín er B-vítamín einnig nefnt fólínsýra, fólat eða fólín. Það er nauðsynlegt fyrir bæði kynin og á öllum aldri. Fólínsýra hefur áhrif á starfsemi í frumum líkamans og hefur auk fyrrnefndra forvarna fósturskaða sýnt sig að draga úr líkum á hjartasjúkdómum meðal fullorðinna.

Í íslenskri rannsókn kom í ljós að einungis 10% kvenna taka fólasín daglega fyrir þungun og er það svipað hlutfall og í erlendum rannsóknum. Hins vegar taka mun fleiri konur fólasín á fyrstu mánuðum meðgöngu og bendir það til að konur fái fræðslu um gagnsemi þess of seint eða geri sér ekki grein fyrir mikilvægi þess að taka það fyrir þungun. Einnig benda rannsóknir til þess að fátítt sé að heilbrigðisstarfsólk ráðleggi konum að taka fólasín fyrir þungun eða fræði þær um forvarnagildi þess.

Ráðleggingar um fólasíntöku

Allar konur á barneignaraldri eiga að taka 0,4 mg (líka skrifað 400 míkrogrömm eða 400?g) af fólasíni daglega frá a.m.k. fjórum vikum fyrir þungun til loka tólftu viku meðgöngu.

Konur sem eru í áhættuhópi eiga að taka 5 mg af fólasíni.

Til kvenna í áhættuhópi teljast konur sem:

hafa áður gengið með fóstur eða átt börn með miðtaugakerfisgalla.

eru á flogaveikislyfjum (einkum natríum valpróat, fenytóin og karbamezipin).

eiga nána ættingja (systkyni, frænda, frænku) eða barnsföður sem hafa greinst með miðtaugakerfisgalla.

eru með insúlínháða sykursýki.

Hvernig fá konur fólasín?

Ýmsar tegundir eru til af 0,4 mg töflum sem eingöngu innihalda fólasín. Hins vegar eru 5 mg töflur lyfseðilsskyldar. Konur sem þurfa 5 mg töflur vegna þess að þær tilheyra áhættuhóp ættu ekki að reyna að ná nauðsynlegu fólasínmagni með því að taka margar fjölvítamíntöflur því það getur verið hættulegt vegna eituráhrifa frá öðrum vítamínum í töflunum.

Margar fæðutegundir innihalda fólasín, sérstaklega grænmeti, ávextir, baunir og vítamínbætt morgunkorn og brauð. Til að tryggja nægilegt fólasín úr fæðunni einni saman er nauðsynlegt að borða a.m.k. fimm skammta (500 gr) af ávöxtum eða grænmeti á dag auk kornmatar. Þrátt fyrir neyslu á hollum mat er ástæða fyrir konur að taka fólasíntöflur einkum þar sem rannsóknir benda til þess að fólasín úr fæðu hefur minni áhrif en tilbúin vítamín eða vítamínbætt fæða til að bæta fólasínbúskap.

Landlæknisembættið mælir með að konur á barneignaraldri taki fólasín.


Anna Björg Aradóttir

hjúkrunarfræðingur Landlæknisembættinu

 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is og í bæklingnum Fólat - fyrir konur sem geta orðið barnshafandi.


Fyrst birt 16.11.2004

<< Til baka