Um 15% heilbrigðra 5 ára barna pissar undir

Næturvæta eða "enuresis nocturna" er skilgreind sem ósjálfráð þvaglát að nóttunni eftir að 5 ára aldri er náð, einu sinni í mánuði eða oftar í 3 mánuði samfellt.

Vandamálið er algengara í drengjum (60% drengir, 40% stúlkur) og á sér líkamlegar orsakir. Um það bil 15% heilbrigðra barna pissa undir við 5 ára aldur en þó að þessi tala lækki árlega um 1% er næturvæta enn til staðar hjá 0,5-1% 18 ára einstaklinga. Algengt er að börn með næturvætu séu kvíðin og spennt en það ástand er afleiðing næturvætu en ekki orsök. Næturvæta er algengari hjá börnum með athyglisbrest og ofvirkni en sértæk lyfjameðferð við þeim vandmálum læknar þó ekki næturvætuna. Erfðir virðast hafa mikið að segja en ekki er enn ljóst með hvaða hætti þeim áhrifum er miðlað.

Aukin þekking á orsökum og meinalífeðlisfræði næturvætu hefur á allra síðustu árum breytt klínískri nálgun vegna vandamálsins en blöðrurýmd, drykkjumynstur, þvagmyndun (rúmmál) yfir nóttina og aldur barns eru þær breytur sem mestu máli skipta þegar velja skal meðferð. Nákvæm skráning á því hve mikið barnið drekkur og pissar í ákveðinn tíma er einföld og ódýr aðferð til þess að nálgast upplýsingar um ofangreind atriði. Eldri flokkun næturvætu þar sem fyrst og fremst er litið á það hvort vandamálið hefur staðið samfellt eða hvort barnið hafði átt langt þurrt tímabil áður en vandinn tók sig upp aftur hefur mjög takmarkaða þýðingu og engin áhrif á val meðferðar. Þau börn sem hafa næturvætu og eðlilega blöðrustarfsemi samkvæmt sjúkrasögu og þvaglátaskrá þarf ekki að rannsaka frekar en sjálfsagt er þó að gera almenna þvagskoðun við fyrstu heimsókn til læknis. Ekki er mælt með því að næturvæta sé meðhöndluð hjá börnum yngri en 5 ára. Eftir að þeim aldri er náð er mikilvægt er að fullt tillit sé tekið til óska foreldra og barnanna sjálfra þegar ákvörðun er tekin er um það hvort meðhöndla skuli vandamálið eða ekki.

Val á meðferð

Við val á meðferð er almenna reglan sú að lyfjameðferð hentar vel fyrir þá einstaklinga sem mynda mikið þvag á nóttunni en næturþjálfameðferð ef blöðrurýmd er lítil. Börnum á aldrinum 5-7 ára er oftast boðin lyfjameðferð þar sem reynslan sýnir að þau svara mun síður næturþjálfa en eldri börnin. Eftir að 7-8 ára aldri er náð aukast líkur á svörun við næturþjálfameðferð til muna og á það reyndar sérstaklega við hjá börnum þau sem hafa litla þvagblöðru. Rétt er að taka það fram að meðferð með næturþjálfa er nokkuð vandasöm og er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmaður með reynslu af notkun næturþjálfa kenni foreldrum og barni rétta notkun hans og styðji fjölskylduna meðan á meðferð stendur. Mjög mikilvægt er að meðhöndla blöðruvandamál áður en sértæk meðferð er hafin við næturvætu en sé það ekki gert verður árangur meðferðar mun lakari.

Þó um það bil 15% barna með næturvætu vaxi árlega frá vandanum getur biðin eftir sjálfkrafa bata reynst bæði börnum og foreldrum erfið en sjálfsagt er að leita til læknis vegna næturvætu sé hún enn til staðar eftir að 5-6 ára aldri er náð.

 

Viðar Eðvarðsson, barnalæknir
sérfræðingur í nýrnalækningum barna
Barnaspítala Hringsins
Landspítala - háskólasjúkrahúsi

 


Fyrst birt 14.03.2005

<< Til baka