Börn í innkaupakerrum

Flestir foreldrar þurfa að taka börnin með sér þegar keypt er inn til heimilisins og þá kemur sér vel að geta sett barnið í sæti á innkaupakerrunni. En þá þarf að hafa hugfast að aldrei má skilja barnið eitt eftir. Fyrir lítið barn að detta úr innkaupakerru niður á steingólf samsvarar því að fullorðinn detti ofan af bílskúr niður á steypta stétt. Sem skýrir hversu alvarlegir áverkanir geta orðið við fall úr innkaupkerru.

Í fyrravor var gerð rannsókn á heima- og frítímaslysum barna á aldrinum 0-4 ára sem komið höfðu á slysadeildina árið 2003. Niðurstöðurnar sýndu að 5% barnanna, tæplega 80 börn, höfðu slasast í verslunum. Einna alvarlegustu slysin sem verða í verslunum eru fallslys og þá flest vegna falls úr innkaupakerrum. Sum þessara slysa eru mjög alvarleg því flest börnin hljóta höfuðáverka.

Hvað geta foreldrar gert til að koma í veg fyrir þessi slys?

  • Látið barnið alltaf sitja í þar til gerðu sæti.
  • Athugið að barn sem er þyngra en 15 kíló á ekki að sitja í innkaupakerru.
  • Börn eiga aldrei að sitja ofan í körfunni sjálfri.
  • Ekki má yfirgefa smábarn eitt augnablik í körfunni.
  • Veljið alltaf körfu sem er með belti fyrir barnið, ef hún er til.
  • Hægt er að nota venjulegt beisli, með smá breytingu, til að festa barnið í sætinu.
  • Þegar kerra er valin er mikilvægt að gæta þess að hjólin virki eðlilega.
  • Sé kerrunni ekið út á bílastæðið gætið þess þá að forðast holur í malbikinu.

Atriðin sem talin eru hér upp tengjast öll slysum á börnum í innkaupakerrum og með því að fara eftir þessum ábendingum leggja foreldrar og forráðamenn sitt af mörkum til að koma í veg fyrir þessi slys.

Hlutverk verslana

Í verslunum þarf líka átak til að koma í veg fyrir þessi slys. Til dæmis mætti vera skilti í verslunum um þessa hættu og einnig mætti fræða starfsfólk um þetta svo það sé í stakk búið til að benda foreldrum á hætturnar. Mjög mikilvægt er að verslanir sjái til þess að belti séu í barnasætunum á innkaupakerrunum. Svo þarf að vera reglubundið eftirlit með kerrunum, nokkur alvarleg slys má rekja til þess að kerran var í ólagi, hjólin stóðu á sér eða að grindin var skökk eftir að ekið hafði verið á hana.

Nauðsynlegt er að lýsing á bílastæðum og aðkoma að versluninni sé í góðu lagi. Hálkuvörn verður að vera en dæmi eru um að foreldrar hafi dottið í hálku fyrir utan verslun og við það hefur innkaupakerran farið á hliðina og barnið kastast úr henni. Sömuleiðis geta skemmdir og holur í malbiki og fláa við inngang verslana orsakað svona slys. Klaka þarf líka að fjarlægja því erfitt er að keyra kerrur yfir hann sem getur orsakað slys.

Leggjumst öll á eitt til að gera innkaupaferðina ánægjulega og hættulausa börnum.

Herdís L. Storgaard
verkefnastjóri Árvekni-barnaslysavarna
Lýðheilsustöð

 


Fyrst birt 21.03.2005

<< Til baka