Lífselixír - er hann til?

Í aldanna rás hafa menn leitað að lyfi sem getur komið í veg fyrir eða læknað sem flest af mannanna meinum. Af og til heyrum við af nýjum lyfjum eða náttúruefnum sem munu leysa okkur undan oki vanheilsu og sjúkdóma.

Oftast er um að ræða óraunhæfar væntingar til einfaldra lausna. Að þessu sögðu er samt sem áður til einföld leið sem fjölmargar rannsóknir sýna fram á að bætir heilsu, kætir geð og dregur úr líkum á sjúkdómum, en það er reglubundin hreyfing. Lífselixírinn er sem sagt til, aukaverkanirnar eru nær engar, en hann getur verið beiskur á bragðið fyrir þá sem mikla fyrir sér tímann og orkuna sem þarf til.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að hreyfing hefur áhrif á eftirtalin heilsufarsvandamál:

 • Hjarta- og æðasjúkdóma
 • Krabbmein, s.s ristilkrabba
 • Beinþynningu
 • Hækkaða blóðfitu og blóðþrýsting
 • Mjóbaksverk
 • Of þyngd og offitu
 • Sykursýki
 • Sýkingar, styrkir ónæmiskerfið
 • Liðagigt
 • Astma
 • Þunglyndi og kvíða

 

Auk þess eykur hreyfing líkamsþrek og liðleika, bætir svefn, eykur líkur á að fólk temji sér heilbrigða lífshætti og er stuðningur fyrir þá sem eru að hætta að reykja.

Lyfseðill á hreyfingu

Heilbrigðisþjónustan gegnir stóru hlutverki við að stuðla að því að fólk hreyfi sig reglulega sér til heilsubótar bæði í forvarnaskyni og til að ráða bót á sjúkdómum. Á undanförnum árum hefur í æ fleiri löndum verið tekin upp sú nýbreytni að læknar ávísi hreyfingu í stað lyfja sem meðferð við ákveðnum sjúkdómum. Hér á landi hefur orðið vakning meðal fagfólks og stjórnmálamanna um að gera slíkt hið sama og tekur Landlæknisembættið undir það. Nú þegar hafa tillögur um þróunarverkefni verið lagðar fram og fulltrúar fagfélaga eins og sjúkraþjálfara, lækna og íþróttafræðinga ásamt Tryggingastofnun, Landlæknisembætti og íþróttahreyfingunni lýst sig reiðubúna til að fylgja henni eftir.

Fyrst og síðast er það þó í höndum okkar sjálfra að gera hreyfingu að föstum þætti í daglegu lífi og draga sem mest úr kyrrsetu. Engum ætti að vaxa í augum að hreyfa sig minnst hálftíma á dag ekki síst þar sem rannsóknir sýna að það má dreifa þessum mínútum eitthvað yfir daginn. Temjum okkur hreyfingu í daglegu starfi og frítíma og hvetjum börnin til að gera slíkt hið sama. Þung rök hníga að því að reglubundin hreyfing er veruleg lífsbót og hún bæði lengir og bætir lífið. Ef allur þorri fólks myndi hreyfa sig minnst hálftíma á dag myndi það draga umtalsvert úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir
Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur


Fyrst birt 19.04.2005

<< Til baka