Verndum börnin okkar fyrir reyknum

Undanfarið hefur mikið verið talað um mikilvægi þess að allir vinni í reyklausu umhverfi. Það er mjög mikilvægt að tryggja öllum reyklaust vinnuumhverfi en það er einnig mjög mikilvægt að virtur sé réttur allra barna til reyklauss umhverfis.

Börnum er að nokkru leyti tryggt reyklaust umhverfi með lögum sem segja að skólar skuli vera reyklausir, gæsla, tómstundasvæði og flest almenn þjónusturými. Þegar kemur hins vegar að heimili fólks er það á ábyrgð foreldra að tryggja barni sínu reyklaust umhverfi.

 

Hvað eru óbeinar reykingar?

Óbeinar reykingar kallast það þegar fólk andar að sér lofti sem er mengað af tóbaksreyk. Sá sem verður fyrir óbeinum reykingum andar að sér sömu efnum og sá sem reykir (þ.e. um 4000 efnum og efnasamböndum eins og ammoníaki, nikótíni og blásýru og yfir 50 krabbameinsvaldandi efnum). Reykurinn sem stígur upp af sígarettu brennur við lægra hitastig en sá sem reykingafólk andar ofaní sig og er því enn skaðlegri heilsu fólks.

 

Áhrif óbeinna reykinga á heilsu barna

Öndunarvegir barna eru hlutfallslega þrengri en fullorðinna sem gerir þau sérstaklega viðkvæm fyrir tóbaksreyk. Það getur haft margvísleg áhrif á heilsu barna að reykt sé í návist þeirra.

Börn sem verða fyrir óbeinum reykingum eru t.d.:

 • Tvisvar sinnum líklegri að fá astmakast og sýkingar í öndunarfærum
 • Líklegri að leggjast inn á sjúkrahús á fyrsta árinu
 • Eru oftar frá skóla vegna veikinda
 • Líklegri til að fá kvef, hósta og mæði

 

Læknisfræðilegar rannsóknir sýna einnig að:

 • Vöggudauði er mun algengari hjá þeim sem búa í reykumhverfi
 • Aukin hætta er á heilahimnubólgu
 • Meiri hætta er á eyrnabólgum
 • Aukin hætta er á að börn þrói með sér astma og ofnæmi

Á upptalningunni hér á undan má sjá að hættan vegna óbeinna reykinga er mikil fyrir börn og vel staðfest. En hvernig verndum við börnin okkar fyrir reyknum?

 

Nokkur góð ráð

Langflestir foreldrar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda börnin sín gegn hvers konar hættum. Hér á eftir eru nokkur ráð um það hvernig við getum verndað börnin okkar fyrir óbeinum reykingum.

 • Hafðu heimili þitt reyklaust. Að reykja við opinn glugga, í öðru herbergi en barnið er eða undir gufugleypinum verndar barnið ekki algjörlega gegn reyknum. Eina raunverulega verndin fæst með því að reykja aldrei í umhverfi barnsins - heldur eingöngu úti og þá vel fjarri barninu.
 • Segðu fjölskyldu, vinum og öðrum sem gæta barnsins að þú biðjir um hreint loft barnsins vegna.
 • Leyfðu aldrei að reykt sé í bíl þar sem barnið er - né í bíl sem barnið notar. Auk heilsuskaða auka reykingar mjög bílveiki barna.
 • Þegar þú ert úti með fjölskyldunni veldu þá reyklaust umhverfi, s.s. reyklaus veitingahús.

 

Mikilvægt er að hafa í huga að ráðin hér að ofan eiga ekki aðeins við ungbörn heldur eiga öll börn rétt á reyklausu umhverfi sama á hvaða aldrei þau eru.

Jakobína H. Árnadóttir, M.Sc. heilsusálfræði
Verkefnisstjóri Lýðheilsustöð


Fyrst birt 27.04.2005
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka