Áhrif rafsegulsviða á heilsufar

Lengi hefur verið vaxandi áhugi á mögulegum tengslum rafsegulsviða, m.a frá ýmis konar rafmagnsmannvirkjum, háspennulínum og loftskeytamöstrum, við ýmiskonar vanlíðun og sjúkdóma. Umræða um áhrif á krabbamein, einkum hvítblæðis, hefur borið hæst. Með reglulegu millibili koma fram menn sem telja þessi tengsl sönnuð og eru tilbúnir til að veita ráð um breytingar á híbýlum, væntanlega með ærnum tilkostnaði.

Miklar rannsóknir hafa farið fram á mögulegum heilsuskaða frá rafsegulsviðum, einkum af mjög lágri tíðni. Jörðin sjálf er hins vegar stór segull og styrkleiki segulsviðs hennar er mörg hundruð sinnum meiri en segulsvið sem stafa t.d. af 120-240 volta raflínum í hús. Segulsvið beint undir háspennuraflínum mælist mun minna en rafsegulsvið sem mælist nálægt höfði manna sem eru að raka sig með rafmagnsrakvél. Í kjölfar þessarar umræðu hafa líka komið upp áhyggjur og ótti um áhrif annarra fyrirbæra, t.d. ratsjáa, örbylgjuofna, sjónvarpsskerma, krullujárna, hitapúða, rafmagnsteppa, hljómflutningstækja, tölva og hárþurrka. Í nýlegri rannsókn var litið á samband þessara tækja við heilaæxli og var niðurstaðan að mjög ólíklegt væri að þessi tæki ykju hættu á heilaæxlum í fólki.

GSM símar tengjast síður segulsviði, en taka hins vegar við og gefa frá sér útvarpsbylgjur. Mikil umræða hefur verið um möguleg skaðleg áhrif notkunar þeirra en viðamiklar rannsóknir frá Danmörku og Bandaríkjunum leiða ekkert slíkt í ljós.

Miklar rannsóknir í dýrum og í tilraunastofum hafa ekki sýnt fram á áhrif segulsviða á hvítblæði. Rannsóknir á áhrifum á menn eru erfiðar vegna þess að örðugt er að finna samanburðarhóp sem býr ekki við nein áhrif rafsegulsviða enda eru þau alls staðar í kringum okkur. Tvær rannsóknir hafa gefið til kynna að tengsl kunni að vera þarna á milli en þau voru lítil og rafsegulsvið var ekki mælt beint í þeim. Mun fleiri rannsóknir eru til þar sem ekki var unnt að sýna fram á nein tengsl af þessu tagi. Þær hafa verið gerðar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Kanada. Þær hafa verið gerðar á nokkrum þúsundum barna og í stuttu máli hefur ekki tekist að sýna fram á tengsl krabbameina barna, þ.m.t. hvítblæðis, við rafsegulsvið.

Lítilsháttar athuganir hafa verið gerðar að gefnu tilefni hér á landi með hjálp Krabbameinsskrár. Í tveimur bæjarfélögum komu fram áhyggjur af mögulegum tengslum loftskeyta- og rafmagnsmannvirkja við ætlaða óvenjulega tíðni krabbameina. Tíðni þeirra, bæði í heild og í einstökum líffærum, var könnuð í þessum bæjarfélögum og ekki tókst að sýna fram á að hún væri önnur en í landinu öllu.

Því er ljóst að mjög viðamiklar rannsóknir hafa farið fram á rafsegulsviðum og útvarpsbylgjum og áhrifum þeirra á heilsufar, einkum krabbameins, sem mestar áhyggjur hafa verið hafðar af. Niðurstaðan er sú að miðað við þá þekkingu sem við búum við nú hefur ekki tekist að sýna fram á nein tengsl. Máli skiptir að þessum rannsóknum sé haldið á lofti, ekki síst til að draga úr ótta almennings við umhverfi sem við öll búum í, en rafmagnslínur, þ.á.m. háspennulínur, heimilisraftæki og símar eru hluti af daglegu lífi okkar allra.

Sigurður Guðmundsson
landlæknir


Fyrst birt 02.05.2005

<< Til baka