Er fjölskyldan að stimpla sig út?

Góð heilsa felst í andlegri, félagslegri og líkamlegri vellíðan. Ef einn af þessum þáttum verður fyrir hnjaski hefur það áhrif á hina tvo og ójafnvægi kemst á líðan einstaklingsins sem verður viðkvæmari fyrir mótbyr. Það er margt sem gerir það að verkum að einstaklingar eiga erfitt uppdráttar þrátt fyrir „góðæri" í landinu og vaxandi velmegun. Eitt er vinnuálag, mjög margir þurfa að vinna langan vinnudag til að ná endum saman.

Allir eiga svo að vera í góðu formi og nota auka tímann í líkamsræktastöðvar, hendast með börnin á milli tómstunda eða í pössun og svo er eftir að sinna félagsstarfinu. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að fjölskyldan sé búin að stimpla sig út af heimilinu og sé fullbókuð utan heimilis. Allt þetta hefur áhrif á samverustundir fjölskyldunnar. Allir hafa sína hentisemi, koma og fara, kannski tími til að borða saman á jólunum. Foreldrar eru uppgefnir og geta ekki sinnt börnum sínum sem skyldi, hvað þá eigin sambandi því það er enginn tími. Samviskubit vex og pirringur magnast og margir flýja í enn meiri keyrslu. Það er svo erfið þögn inni á heimilinu eða sífellt verið að rífast.

 

En hvaða áhrif skyldi líðan foreldranna hafa á börnin?

Það að alast upp við pirring, fýlu, þögn eða afskiptaleysi hefur áhrif á sjálfsmynd og sjálföryggi barnanna. Þau verða óörugg um hvað má núna og hvað ekki. Þau fara að fela ástandið heima og ýmist taka þau mikla ábyrgð á aðstæðum eða reyna að flýja af hólmi. Það er spurning hvort barnið þori að koma með vini sína heim eða hvort það geti látið foreldra sína fá blað frá skólanum um fund.

Börn sem skortir gott atlæti í æsku eru í meiri áhættu en önnur börn með að flosna upp úr skóla, vera með hegðunarvanda, verða kvíðin, fá þunglyndi eða lenda í klóm fíkniefnasala og þar með afbrotum, ofbeldi og vændi til að fjármangna neysluna. Þeim er einnig hættara við að gefast upp á lífinu og fremja sjálfsvíg. Þetta er sorgleg staðreynd.

 

Er ekki kominn tími til að gefa fjölskyldunni meira svigrúm?

  • Taka sér tíma til að staldra við og reyna að einfalda líf okkar.
  • Gefa okkur betri tíma með okkar nánustu sýna þeim umhyggju og gleðjast yfir augnablikinu og njóta þess að vera heima.
  • Fylgjast með því sem börnin eru að fást við á hverjum tíma í skólanum og eiga frístundir saman.
  • Vera í samvinnu við kennara og aðra foreldra um samræmdar reglur.

 

Börn þurfa og vilja fá umhyggju, aðhald og eftirlit til að byggja upp öflugt sjálfstraust til að takast á við viðfangsefni lífsins. Þau þurfa að vita að þau geti treyst þeim fullorðnu. Hamingjan verðu ekki keypt, hún býr í augnablikinu eða eins og Irwin Edman, heimspekingur sagði: "Hæfileikinn til að gleðjast kann í sjálfu sér að verða mesta hamingjan og áhrifamesta skrefið í átt til þroska". Njótum þess að eiga fjölskyldu, hlúum að okkar nánustu látum og okkur varða nánasta umhverfi. Velgengni í lífinu er langhlaup, settu þér raunhæf markmið og láttu drauma þína rætast.

 

Salbjörg Bjarnadóttir
Geðhjúkrunarfræðingur og verkefnisstóri 
Landlæknisembættinu

Birtist í Mbl. 26. sept. 2005

 


Fyrst birt 26.09.2005
Síðast uppfært 06.12.2016

<< Til baka