Hvað er glerungseyðing tanna?

Sjá stærri myndSjá stærri mynd

Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá íslenskum unglingum - en hvað er glerungseyðing tanna? Glerungseyðing er það kallað þegar sýra leysir upp tannvef. Bein tannkrónunnar er hulið hörðu lagi sem nefnt er glerungur. Glerungurinn er harðasti vefur líkamans og er 95% steinefni en að öðru leyti vatn og lífræn efni.

 

Hvað gerist?

Þegar þú drekkur eða borðar eitthvað sem er súrt, eins og t.d. gosdrykki, getur það skaðað tennurnar.Ysta lag glerungsins leysist upp. Mjög þunnt lag af yfirborði tannarinnar skolast burt og kemur ekki aftur.

Form tannanna breytist. Fyllingar í jöxlum virðast rísa upp yfir glerunginn sem áður var þeim jafnhár. Glerungur framtanna eyðist að innanverðu og við það þynnast tennurnar.

Í fyrstu er glerungseyðing sársaukalaus og erfitt er að sjá hana sjálfur. Á seinni stigum geta tennurnar hins vegar orðið næmari fyrir kulda og hita og viðkvæmar þegar þær eru burstaðar

Best er að drekka mjólk og vatn daglega við þorsta og með mat.

Þegar sífellt er verið að drekka gosdrykki yfir daginn þá eykst hættan á glerungseyðingu.

 

Hvað er súrt?

 

Drykkir

Í sykruðum og sykurlausum gosdrykkjum og ávaxtasöfum er sýra og þeir geta því leyst upp glerunginn.

Mjólk og vatn, með og án goss, leysir ekki upp glerunginn.

 

Matur

Ávextir eru hollir-borðaðu gjarnan nokkra á dag. Í einstaka tilfelli getur mikil og tíð neysla mjög súrra ávaxta skaðað glerunginn.

 

Uppköst og bakflæði

Tíð uppköst þar sem magasýrur koma upp í munnholið (bakflæði)geta leyst upp glerunginn.

 

Sælgæti

Ef mikið er borðað af súru sælgæti, t.d. víngúmmi, getur það leyst upp glerunginn.

 

Hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja glerungseyðingu?

Það er margt sem getur skemmt tennur - og jafnvel þó þær séu burstaðar daglega þá getur glerungurinn eyðst. En hér eru nokkur fyrirbyggjandi ráð:

  • Takmarka neyslu súrra drykkja og matvæla og neyta þeirra eingöngu á matmálstímum.
  • Ljúka við súra drykkinn á stuttum tíma, frekar en að vera að dreypa á honum í langan tíma.
  • Skola munninn vel með vatni eftir að hafa fengið sér eitthvað súrt.
  • Bursta ekki tennurnar strax eftir súran mat eða drykk því hætta er á að bursta burt tannvef sem er viðkvæmur eftir sýruna.
  • Nota alltaf tannbursta með mjúkum hárum og tannkrem með litlu eða engum slípiefnum.
  • Drekka frekar vatn eða mjólk í stað súrra drykkja.

 

Ert þú með glerungseyðingu?

Þegar þú ferð í tanneftirlit fáðu tannlækninn þinn til að athuga það og farðu jafnframt yfir neysluvenjur þínar.

 

Dr. Inga B. Árnadóttir

tannlæknir og formaður tannverndarráðs

Jóhanna Laufey Ólafsdóttir

tannfræðingur og verkefnastjóri tannverndar, Lýðheilsustöð


Fyrst birt 01.02.2006

<< Til baka