Skyndidauði ungbarna - forvarnir gera gagn

Sjá stærri mynd

Nær allir foreldrar bera einhvern kvíða í brjósti yfir því að eitthvað komi fyrir barnið þeirra og oft er kvíðinn mestur fyrstu vikurnar og mánuðina. Sumir vakna á næturnar til að gæta að barninu og róa sjálfan sig. Eitt af því sem veldur áhyggjum er skyndidauði ungbarna, öðru nafni vöggudauði.

Hann er skilgreindur þannig að ungbarn, oftast á aldrinum 2ja-4ra mánaða, deyr í svefni, án undanfarandi veikinda, og vönduð krufning með viðeigandi rannsóknum leiðir ekki í ljós dánarorsök. Sem betur fer hefur tíðni vöggudauða hér á landi hefur verið með því lægsta sem þekkist í nálægum löndum.

Nýjar rannsóknir benda til þess að notkun snuðs á svefntíma dragi úr líkum á vöggudauða. Því er mælt með henni í nýjum leiðbeiningum sem landlæknir hefur sent frá sér um aðgerðir til varnar skyndidauða ungbarna. Síðast voru slíkar leiðbeiningar gefnar út árið 1994, en í ljósi nýrrar þekkingar hafa þær nú verið endurskoðaðar og sendar öllu heilbrigðisstarfsfólki sem annast ungbarnavernd.

Meginbreytingin frá leiðbeiningunum 1994 er sú að í ljósi ofannefndra rannsókna er nú mælt með notkun snuðs á svefntíma ungbarna, þó ekki fyrr en brjóstagjöf er komin vel á veg, enda er brjóstagjöfin einnig talin vera mikilvæg vörn gegn vöggudauða.

Aðrar breytingar eru að aukin áhersla er nú lögð á að ungbörn sofi á bakinu. Ef það reynist af einhverjum ástæðum erfitt er mælt með að því að gæta þess að börnin geti ekki oltið á grúfu. Að öðru leyti er foreldrum ráðlagt að ekki sé reykt á heimilum ungbarna eða þar sem þau dvelja, að ungbörn sofi jafnan í eigin rúmi og séu höfð á brjósti ef þess er nokkur kostur. Þá skal forðast að nota kodda undir höfuð ungbarna og að ofdúða þau

Landlæknisembættið vill koma eftirfarandi ábendingum til foreldra:

 1. Leggið heilbrigð ungbörn til svefns þannig að þau liggi á baki. Ef hliðarlega er valin verður að gæta þess að þau geti ekki oltið yfir á grúfu þar sem þeirri legu hefur fylgt aukin áhætta á vöggudauða. Þegar um er að ræða fyrirbura eða ungbörn sem hafa verið veik eða hafa meðfæddan galla af einhverju tagi skal fylgja sérstökum fyrirmælum læknis.
 2. Forðist tóbaksreykingar, sérstaklega á meðgöngutíma, á heimilum ungbarna og öðrum stöðum þar sem þau dveljast.
 3. Látið ungbörn sofa í eigin rúmi í herbergi foreldra fyrstu mánuðina. Sérstaklega er varhugavert að börn deili rúmi með þeim sem:
  - Reykja.
  - Hafa notað áfengi eða önnur vímuefni.
  - Nota lyf sem hafa þau áhrif að svefn er dýpri.
  - Eru mjög þreyttir.
 4. Hafið barnið á brjósti sé þess kostur.
 5. Notið ekki kodda undir höfuð ungbarna þegar þau eru lögð til svefns og forðist mjúkar dýnur og mjúk leikföng í rúmum þeirra. Gætið þess að gæludýr á heimilinu komist ekki í rúm barnanna.
 6. Forðist ofdúðun ungbarna. Fylgist með því að þeim sé ekki of heitt, t.d. hvort þau svitna, og minnkið klæðnað og annan umbúnað ef svo er.
 7. Mælt er með snuðnotkun á svefntíma þegar brjóstagjöf er komin vel á veg þar sem rannsóknir benda til að það dragi úr líkum á vöggudauða.
 8. Látið fylgjast vel með heilbrigði ungbarna. Notfærið ykkur þá ungbarnavernd sem í boði er.

Það skal ítrekað að skyndidauði ungbarna er sjaldgæfur hér á landi og því ekki ástæða fyrir foreldra til að hafa miklar áhyggjur en vert er að hafa þessar ábendingar að leiðarljósi meðan börnin eru ung.

Anna Björg Aradóttir

yfirhjúkrunarfræðingur

Embætti Landlæknis


Fyrst birt 06.03.2006

<< Til baka