Geðheilbrigði ungra barna

Góð geðheilsa og líðan eru undirstaða allra lífsgæða, og gerir fólki fært að finna tilgang með lífinu og vera virkir og skapandi þjóðfélagsþegnar (WHO, 2005). Það er því ekki erfitt, að taka undir þegar því er haldið fram, að andleg og líkamleg heilsa barna og unglinga leggi grunninn að velferð þeirra í lífinu.

Það er oftast nær auðvelt að átta sig á veikindum barns þegar það er komið með háan hita og sem foreldrar látum við okkur miklu varða hvernig líkamlegri heilsu barna okkar er háttað. Mörgum getur hins vegar yfirsést að koma auga á ef barni líður illa andlega eða tilfinningalega, því einkennin eru ekki alltaf augljós. Börn lenda í alls konar erfiðleikum, t.a.m. hversdaglegum atburðum eins og rifrildi á skólalóðinni eða afbrýðisemi í garð yngra systkinis. Einnig lenda þau í alvarlegri vandamálum sem geta t.d. tengst dauða nákomins ættingja, því að byrja í nýjum skóla, skilnaði foreldra eða verða fyrir einelti.

Allar breytingar eða missir geta raskað tilveru ungra barna. Þegar breytingin hefur átt sér stað getur líðan barnsins breyst mjög fljótt og það getur virst hafa aðlagast hratt að nýju aðstæðunum. Við erfiðar aðstæður þýðir þetta þó ekki að breytingin hafi ekki haft áhrif á barnið - viðbrögðin geta komið síðar, jafnvel eftir nokkur ár. Mikilvægt er að átta sig á því að hegðun barns gefur ekki alltaf til kynna hvernig því líður innst inni. Stundum tjá börn tilfinningar sínar og líðan þannig að það getur verið erfitt að vita hvernig þeim raunverulega líður. Sem dæmi má nefna barn sem kvíðir því að flytjast í nýjan bekk í skólanum gæti dulið kvíða sinn með því að vera árásargjarnt eða draga sig algjörlega í hlé og forðast öll samskipti við aðra. Sum börn hafa ekki vanist því að tala upphátt um tilfinningar eða gefa öðrum til kynna hvernig þeim líður. Það er samt sem áður þessi hæfni sem er forsenda þess að börn geti lært að nýta sér ýmsar færar leiðir við að bjarga sér í erfiðum aðstæðum. Þessi hæfni leggur einnig grunninn að hæfni barnsins til að geta fundið hvernig öðrum líður og til að veita öðrum hjálp og stuðning. Mikilvægt er að hafa í huga að börn sem eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar eru börnin sem leita sér síður aðstoðar þegar vanda ber að höndum.

 

Ábendingar:

  • Haltu fjölskyldufundi um mál sem þarf að ráða fram úr. Ef erfið tilfinningaleg mál koma upp, t.d. alvarlegt rifrildi eða dauðsfall í fjölskyldunni er hægt að fara þessa leið.
  • Talaðu um tilfinningar. Spurðu barnið þitt um tilfinningar persóna í sögum eða í sjónvarpi.
  • Segðu barninu hvernig þér líður. Spurðu barnið hvernig því líður - og hvers vegna.
  • Þegar breytingar eru í aðsigi - nýtt heimili eða skóli, eða nýtt systkini í vændum, skaltu tala við barnið um væntingarnar sem það hefur til breytinganna sem verða munu á högum þess

 

Vertu á varðbergi

Börn jafnt sem fullorðnir geta átt við andlega vanlíðan eða geðheilsubresti að stríða. Vertu á varðbergi ef eitthvað af eftirfarandi breytingum gera vart við sig hjá barninu þínu.

  • ef það missir áhuga á því sem það hafði áður gaman af og hefur tilhneigingu til að einangra sig frá vinum eða fjölskyldu
  • ef svefn eða matarlyst þess raskast án sýnilegrar ástæðu
  • ef því fer skyndilega að ganga illa í skólanum og/eða neitar að fara í skólann
  • ef það sýnir óeðlilega sterk tilfinninga viðbrögð við einföldum hlutum og fær tíð reiði- eða grátköst
  • ef mikill kvíði, depurð og vonleysi gera vart við sig án sýnilegrar ástæðu og þessar tilfinningar líða ekki hjá
  • ef því finnst lífið of erfitt og talar um að það vilji ekki lifa

 

Leitaðu aðstoðar fagfólks sem hefur sérþjálfun í að meta geðheilbrigði barna ef þú hefur áhyggjur af geðheilsu barnsins þíns.

 

Guðrún Guðmundsdóttir

verkefnisstjóri Geðræktar, Lýðheilsustöð


Fyrst birt 26.05.2006

<< Til baka