Þvagleki

Þvagleki er mjög algengt heilsufarsvandamál og þá einkum hjá konum. Oft er um verulegt feimnismál að ræða sem er sjaldan rætt í vinahópi og jafnvel erfitt að brydda upp á við heilbrigðisstarfsfólk. Þetta er vandi sem of fáir segja frá og því margir sem ekki fá rétta meðferð.

Þvagleki hefur verið skilgreindur sem ósjálfráður þvagleki án þess að fólk geti komið í veg fyrir hann eða jafnvel viti af honum. Lekinn getur verið í dropatali eða svo mikill að einstaklingurinn rennblotnar. Þetta er algengt vandamál sem hefur áhrif á daglegt líf og dregur úr lífsgæðum fólks.

Þvagleki getur byrjað hvenær sem er en er líklegri með hækkandi aldri. Mikilvægt er að í flestum tilvikum er hægt að meðhöndla þvagleka og þess vegna á fólk að leita sér aðstoðar hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða sjúkraþjálfara. Þvagleka er skipt í nokkrar tegundir:

Áreynsluþvagleka, sem er algengasta tegund þvagleka. Þá missir fólk þvag við aukinn þrýsting í kviðarholi við áreynslu eins og hósta, hnerra, hlátur eða aðra líkamlega áreynslu. Meginástæðan eru slappir grindarbotnsvöðvar og því lítill stuðningur við þvagrás. Algengasta ástæða slappra grindarbotnsvöðva hjá konum er meðganga og fæðingar og tíðnin er algengari hjá konum sem fætt hafa mörg börn. Offita og hækkandi aldur hafa einnig áhrif. Karlmenn geta einnig fengið áreynsluþvagleka og þá oft í tengslum við aðgerð á blöðruhálskirtli.

Bráðaþvagleka, sem er svo skyndileg og sterk þvaglátsþörf að fólki gefst ekki tími til að ná á salerni. Sagt er að um órólega eða ofvirka þvagblöðru sé að ræða og þetta vandamál sést í öllum aldurshópum. Einkennin geta verið væg og lýst sér í stöðugri þörf til að kasta af sér vatni eða þannig að viðkomandi getur ekki haft stjórn og haldið í sér. Ekki er með vissu vitað hvað orsakar bráðaþvagleka en hin eiginlega blöðrustjórnun er úr skorðum. Ýmsir taugasjúkdómar geta valdið órólegri blöðru og einföld þvagfærasýking getur gefið svipuð einkenni. Einkennin geta versnað við álag.

Blandaðan þvagleka, sem er blanda af þessu tvennu.

Hvað er til ráða?

  • Áreynsluþvagleki: Gindarbotnsþjálfun á að vera fyrsti kostur þegar um er að ræða áreynsluþvagleka og hefur hún samkvæmt rannsóknum skilað góðum árangri. Ýmsar breytingar á lífsháttum geta verið til hjálpar. Reykingar geta orsakað langvarandi hósta sem eykur þvaglekann. Offita getur verið áhættuþáttur þvagleka og því mikilvægt að vera sem næst kjörþyngd. Stundum er raförvun notuð sem hjálpartæki í grindarbotnsþjálfun. Raförvunin hjálpar einstaklingnum til að auka tilfinningu hans fyrir vöðvunum þannig að hann dragi þá rétt saman. Ef grindarbotnsþjálfun skilar ekki árangri er hægt að beita öðrum ráðum.
  • Bráðaþvagleki: Blöðruþjálfun og reglulegar salernisferðir eru einn þáttur í meðhöndlun bráðaþvagleka. Þá eru til lyf sem draga úr ofvirkni blöðrunnar. Einnig er hægt að beita raförvun til að bæla heilaboð til blöðru.

Ekki lifa með þvagleka án þess að leita aðstoðar

Í þessum pistli er ætlunin að vekja athygli á vandamálinu og að það er oft hægt að bæta úr því. Fólki er eindregið bent á að ráðfæra sig við heimilislækni sinn eða hjúkrunarfræðing, því það er engin ástæða til að þjást í laumi.

 

Sigurður Helgason læknir

Landlæknisembættinu

Sigríður Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur

Landspítala - háskólasjúkrahúsi

Frekari upplýsingar um þvagleika


Fyrst birt 19.06.2006

<< Til baka