Sumarið er komið og stundum er það flókið!

Sjá stærri mynd

Nú þegar sumarið er gengið í garð eru flestir komnir með áætlun um hvernig sé best að njóta þess. Framundan eru frí frá vinnu og hversdagsleika og við taka ferðalög, ættarmót, heimsóknir, grill, tilhlökkun að hitta ættingja og vini. Vitað er samt að hjá sumum fjölskyldum veldur sumarið upplausn og streitu. Áhyggjur yfir því að fjárhagur leyfi ekki frí eða veikindi setja strik í reikninginn. Í öðrum fjölskyldum er ekki samstaða milli foreldra eða einstæðir foreldrar koma sér illa saman um hvernig eigi að skipta sumrinu.

Rútínan sem veturinn hefur í för með sér riðlast, það þarf að kaupa endalaus námskeið til að hafa ofan af fyrir börnunum, leikskólar loka, sumarfrí foreldra stangast jafnvel á eða að þeir reyna meðvitað að skiptast á um að vera í fríi til að gæta barnanna. Hvernig skyldi allt þetta fara með parsambandið? Hjá sumum er það einnig áhyggjuefni hvernig hægt er að gera eitthvað saman sem fjölskylda. Og hvað er yfirhöfuð fjölskylda? Fjölskyldumynstur í nútímanum eru oft flókin; börnin mín, börnin þín, börnin okkar og hver fer hvert með hverjum. Heimilið á að vera skjól þar sem hver einstaklingur í fjölskyldunni á að finna fyrir hlýju, umhyggju og stuðningi. Ef vel á að vera er það staðurinn þar sem einstaklingurinn á að geta tjáð sig, fengið hlýlegt faðmlag, hrós, hvatningu, deilt ánægjulegri upplifun og fengið huggun ef á móti blæs. Á heimilinu læra börnin að setja sig í spor annarra og að gefa og þiggja. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og því er mikilvægt að þau leysi ágrening sinn á ábyrgan hátt og rækti samband sitt, því annars er hætt á að erfitt sé að vera heima í þrúgandi andrúmslofti, spennu og togstreitu.

Börn sem búa við óöryggi eða togstreitu foreldra kvíða oft fyrir sumrinu. Kvíðanum fylgir órói, vanlíðan, einsemd og jafnvel depurð. Þau verða oft upptekin af að segja hvað vinirnir ætla að gera með foreldrum sínum og langar svo sannarlega að geta sagt frá því í skólanum næsta vetur hvað þau gerðu með foreldrum sínum eða jafnvel ömmu og afa. Það hefur mikla þýðingu fyrir heilsu allra, og ekki síst barna, að vera meðvituð um að eiga góða að og geta glaðst með þeim.

Þar sem fullorðna fólkið er enn að reyna að átta sig á hvað á að gera í sumar er mikilvægt að koma sér saman um markmið og segja börnunum frá þeim. Þó þarf að gæta þess að vera ekki með stórar yfirlýsingar sem ekki er hægt að standa við. Börn eru mjög næm á svik og upplifa höfnun sterkt sem getur haft veruleg áhrif á sjálfsmynd þeirra síðar.

Þó svo að fjárhagur sé knappur eða veikindi setji strik í reikninginn er nauðsynlegt að taka sér frí og gera sér dagamun. Það er hægt að fara í alls kyns ferðir út í náttúruna allt í kring og það þarf ekki að kosta svo mikið. Það er í raun nánd, gleði og samstaða fjölskyldunnar sem börnin eru að biðja um. Það að geta sagt að þau áttu skemmtilegar stundir með mömmu og pabba, systkinum og öðrum ættingjum. Við þurfum að muna að við erum dýrmæt hvert og eitt í fjölskyldunni okkar, hvernig sem hún er samsett. Gleðjumst yfir því að við lifum núna og njótum þess. Að lokum langar mig til að biðja þig, lesandi góður, að íhuga orð Irwin Edman, heimspekings sem sagði eitt sinn: Hæfileikinn til að gleðjast kann í sjálfu sér að verða mesta hamingjan og áhrifamesta skrefið í átt til þroska.

 

Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur

verkefnastjóri Þjóðar gegn þunglyndi, Landlæknisembættinu


Fyrst birt 30.06.2006

<< Til baka