Verum klár í sólinni

Sólarljósið færir okkur þrennt: birtu, hita og geislun. Allt þetta er nauðsynlegt fyrir  okkur og annað líf á jörðinni. En of mikil útfjólublá geislun frá sólinni getur skaðað húðina og augun en einnig flýtt fyrir hrörnun húðarinnar. Við, sem búum þar sem sólin skín sjaldan, erum yfirleitt með hörund sem þolir illa sólargeislun. Sterkt samband er milli þess að brenna í sólinni og fá húðkrabbamein síðar á ævinni.

Húðkrabbamein eru algengasta krabbameinið á Íslandi og hefur aukist það mikið á undanförnum áratugum að sagt er að að tala megi um faraldur. Hættulegasta tegundin af húðkrabbameini er sortuæxli og samkvæmt Krabbameinskránni eru um 500 Íslendingar á lífi sem hafa fengið þessa tegund krabbameins. Ástæðu aukningarinnar er sennilega að leita í auknum frítíma og tíðari ferðum Íslendinga á suðrænar slóðir. Ljóst er að ekki fækkar slíkum ferðum og því full ástæða til að minna okkur landsmenn á að fara varlega í sólinni. Greinilegt samband er á milli þess að sólbrenna sem barn og að fá sortuæxli síðar á ævinni. Sérstaklega þarf því að gæta þess að börnin okkar sólbrenni ekki. Sólargeislar ættu aldrei að skína á ungbörn.

Njótum sólarinnar varin

Það þarf samt ekki að stafa mikil hætta af því að njóta sólarinnar ef við fylgjum nokkrum einföldum ráðum og notum heilbrigða skynsemi til að forðast að brenna í sólinni. Hér á eftir eru nokkrar ábendingar um hvernig við getum varist hættulegum geislum sólarinnar á suðrænum slóðum - en ekki má gleyma því að sökum þess hversu tært andrúmsloftið er hér á Íslandi þá getur útfjólublá geislun frá sólinni valdið sólbruna á skömmum tíma.

  • Forðumst sólina um miðjan daginn - Frá klukkan 11 til 15 eru geislar sólarinnar sterkastir og um 60% af heildargeislun dagsins á sér stað á þessu tímabili. Þegar það er mögulegt er það klárlega besta og einfaldasta sólarvörnin að forðast útfjólublá geislun sólarljóssins á þessum tíma. Svo má ekki láta skýjaðan himin villa sér sýn: um hádegi á skýjuðum degi nær meiri geislun til jarðar en á heiðbjörtum degi um kl. 16.
  • Sitjum í skugganum - Að vera í skugganum er einnig góð og einföld leið að verja sig fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Ef skuggi manns er lengri en maður sjálfur, þ.e.a.s. fyrir hádegi og seinnipart dags, þá er óhætt að vera í sólinni. Ef skugginn er styttri þá er hætta á að verða fyrir hættulegri útfjólublárri geislun.
  • Klæðumst fötum - Að klæðast víðum langerma skyrtum og síðbuxum er þægileg og árangursrík aðferð að verja sig fyrir geislum sólarinnar þegar maður þarf að vera utanhúss um miðjan dag. Barðabreiðir hattar veita augum, eyrum, andliti og aftan á hálsi góða vörn en á þessum stöðum hættir okkur sérstaklega til að sólbrenna.
  • Notum sólarvarnaráburð - Við verðum að bera á okkur nægjanlegt magn af sólvarnaráburði á húðina þar sem sólargeislarnir fá að leika óhindraðir um. Áburðurinn verður að veita vernd gegn bæði A og B geislum og vera með sólvarnarstuðulinn 15 eða hærri. Bera á áburðinn á hálftíma áður en farið er í sólina og endurtaka á tveggja klukkutíma fresti. Munum að jafnvel vatnsþolinn sólaráburður máist af við það að þurrka sér með handklæði og þegar maður svitnar eða er lengi í vatni.
  • Verum með sólgleraugu sem vernda algjörlega gegn útfjólublárri geislun - Sólgleraugu með algerri vörn gegn bæði A og B geislum draga stórlega úr áreiti sólargeislunarinnar á augun, en slíkt getur orsakað ský á auga (e. cataract) og aðra augnsjúkdóma.
  • Forðumst ljósabekki - Geislunin frá sólarlömpum getur skaðað á húðina og augun. Og sú brúnka sem fæst frá sólarlömpum ver húðina ekki fyrir geislun frá sólinni. Það er því er ekki hægt að undirbúa húðina fyrir ferð til sólarlanda með því að fara í sólarlampa á sólbaðstofu.
  • Sólargeislavísir - (Ultraviolet Index) -„Sólargeislavísir" veitir mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta sér til að forðast sólbruna. Með því að fara á krækjuna hér að neðan er hægt að fá upplýsingar um sólargeislunina miðað við hvar í heiminum maður er staddur og út frá því, sem og eigin húðgerð, hvernig ráðlegt er að haga sólavörnum.

 

Sveinbjörn Kristjánsson
verkefnisstjóri fræðslumála
Lýðheilsustöð

(Ofangreindar leiðbeiningar uppsettar á A4-blað. PDF-skjal, 414 kB)

 

Birtist í Mbl. 10. júlí 2006


Fyrst birt 12.07.2006
Síðast uppfært 27.06.2016

<< Til baka