Tóbak og ungt fólk

Margir unglingar sem byrja að fikta við reykingar trúa því staðfastlega að þeir geti hætt þegar þeir vilja. Staðreyndin er hins vegar sú að reykingar eru svo ávanabindandi að flestir eiga erfitt með að hætta að reykja.

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á hvort ungt fólk byrji að reykja. Börn reykingafólks hér á landi eru til að mynda þrisvar sinnum líklegri til að byrja að reykja en börn fólks sem ekki reykir. Andstaða foreldra gegn reykingum barnanna skiptir hins vegar mjög miklu máli, hvort sem foreldrarnir reykja sjálfir eða ekki. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt sterk tengsl milli reykinga unglings og félagsskapar.

Uppeldishættir foreldra eru einn af þeim þáttum sem geta haft áhrif á hegðun ungs fólks. Íslensk rannsókn sýnir að unglingar sem búa við leiðandi uppeldishætti eru ólíklegri til að reykja en unglingar afskiptalausra, skipandi eða eftirlátra foreldra. Leiðandi foreldrar krefjast þroskaðrar hegðunar af barninu og taka vel á móti hugmyndum þess. Þeir setja skýr mörk um hvað er tilhlýðilegt og hvað ekki, nota til þess útskýringar og hvetja börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þeir sýna börnunum mikla hlýju og uppörvun en veita þeim samtímis aðhald.

Andleg líðan og sjálfsmat ungs fólks er einnig mikilvægur þáttur í því hvort það byrji að reykja. Við 14 ára aldur eru unglingar líklegri til að reykja daglega ef þeir finna til streitu, depurðar eða eru haldnir félagslegum kvíða og telja sig fremur stjórnast af ytri þáttum en því að þeir sjálfir geti haft áhrif á gang mála. Rannsóknir hafa einnig sýnt að unglingar sem hafa hátt sjálfsmat og reykja ekki við 14 ára aldur eru ólíklegri til að reykja þremur árum síðar.
Það er ýmislegt sem foreldrar, aðstandendur eða þeir sem hafa með ungt fólk að gera geta gert til að hafa áhrif á hegðun þeirra.

  • Hvetjum unglinga og ungt fólk til að byrja ekki að fikta við reykingar og neyslu tóbaks almennt.
  • Hvetjum og aðstoðum þá sem eru byrjaðir að fikta til að hætta áður en þeir verða háðir nikótíni.
  • Setjum börnum skýr mörk og styðjum þau til uppbyggjandi og jákvæðra verka án tóbaks.
  • Ræðum um reykingar og fáum ungt fólk til að meta kosti og galla þess að nota tóbak.

 

Staðreyndin er að það er mjög erfitt að finna jákvæðar hliðar tóbaksneyslu.

Neikvæðu hliðar neyslunnar eru hins vegar svo uggvænlegar að það nægir að nefna að af hverjum 1000 sem reykja munu liðlega 500 deyja af völdum reykinga - þar af 250 langt um aldur fram.

Það má hins vegar búast við að ungt fólk sé opnara fyrir skammtímaáhrifum neyslunnar og má þar meðal annars nefna peningasóun, minna þol og úthald, andfýlu og vonda lykt af húð og fötum.

Að lokum skal bent á að munntóbaksnotkun er einnig ávanabindandi og ólögleg á Íslandi. Það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því að munntóbaksnotkun felur í sér alveg jafn mikla fíkn í nikótín og reykingar.

 

Viðar Jensson

verkefnisstjóri í tóbaksvörnum, Lýðheilsustöð


Fyrst birt 13.11.2006

<< Til baka