Gott líf á nýju ári

Það er gömul saga og ný að við áramót staldri fólk við og hugi að því hvert það vill stefna í lífinu. Margir strengja þess heit að gera einhverjar breytingar á lífi sínu eða lífsháttum sem er góðra gjalda vert. Oft lúta áramótaheitin að því að bæta heilsuna með því að hreyfa sig meira, borða hollari mat eða hætta að reykja eða drekka. Þetta vita þeir sem vilja selja fólki leiðir til að bæta heilsuna og því dynja á okkur auglýsingar og gylliboð um hina og þessa þjónustu sem á að hjálpa fólki í viðleitni þess að taka upp betra lifnaðarhætti.

Mikilvægt er að skoða vel hvað það er sem verið er að bjóða, margt er að sjálfsögðu gott og gilt, en innan um er verið að selja þjónustu sem alls ekki er víst að standi undir því sem heitið er í auglýsingum eða geri yfir höfuð gagn. Þá er einnig vert að huga að því að heilsan verður ekki keypt sem slík það er vel hægt að rækta hana án þess að kaupa dýra ráðgjöf eða meðferð. Annað sem fólk ætti að hafa í huga er að heilsan er ekki upphaf og endimörk alls í lífinu hún gerir fólki hins vegar auðveldara að framkvæma hluti sem það telur mikilvæga til að geta lifa innihaldsríku lífi. Er í raun ekki mikilvægara á svona tímamótum að setja sér markmið um það hvernig við viljum bæta líf okkar og á hvern hátt við getum látið gott af okkur leiða fyrir samferðamenn okkar í lífinu.

Mikið hefur verið ritað og rætt um ákveðna hópa í samfélaginu sem þarf að huga að til að efla heilsu þeirra og velferð. Í fyrsta lagi má nefna börn og barnafjölskyldur en svo virðist sem að margir foreldrar hafi ekki nægan tíma til að sinna þörfum barna sinna fyrir ást og umhyggju þó viljinn sé til staðar. Ef ekki er hlúð að börnum á uppvaxtarárum þeirra aukast líkur á því að þeim farnist ekki eins vel og ella hefði getað orðið. Í öðru lagi hafa málefni innflytjenda verið til umræðu, en rannsóknir benda til að ef samfélagið er ekki vel undirbúið til að taka á móti þeim og gera alla aðlögun að nýju þjóðfélagi eins auðvelda og kostur er getur orðið til hópur sem ekki hefur sömu tækifæri og aðrir til að búa við góða heilsu og lífsgæði. Það sama á við um þriðja hópinn sem eru þeir sem búa við fátækt, en við íslendingar erum það stöndug þjóð að við ættum að geta komið í veg fyrir að það ríki ójöfnuður í landinu.

Til að bæta heilsu og lífsgæði fólks þarf fyrst og fremst að gera umhverfi og aðstæður fólks þannig að það hvetji til heilsusamlegra lifnaðarhátta og samfélagslegrar ábyrgðar á möguleikum allra til að lifa innihaldsríku lífi. Þar verða ráðamenn þjóðarinnar og aðrir sem geta haft áhrif á aðstæður fólks að leggja sitt af mörkum en ábyrgðin er þó engu að síður okkar allra.

Anna Björg Aradóttir

yfirhjúkrunarfræðingur

Birtist í Mbl. 3. janúar 2007


Fyrst birt 03.01.2007

<< Til baka