Ég ætla að hætta að leyfa tóbakinu að stjórna lífi mínu!

Það er lífsstílsbreyting að hætta að reykja og stór ákvörðun að taka stjórnina í sínar hendur. Gerðu þér grein fyrir að þetta er að miklu leyti spurning um hugarfar. Þú verður að byggja upp það hugarfar með sjálfum/sjálfri þér að þér muni takast þetta. Stappaðu í þig stálinu og segðu við sjálfa/n þig: Ég veit að ég get þetta! Því það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er trúin á eigin getu. Ef þú hefur reynt áður að hætta en ekki tekist, þarftu að líta á þá reynslu á jákvæðan hátt. Hvernig get ég lært af henni? Hvað get ég gert öðruvísi núna?

Gerðu þér grein fyrir af hverju þig langar að hætta að reykja. Skrifaðu ástæðurnar niður á blað og hengdu blaðið upp á áberandi stað, þér til áminningar. Þetta hjálpar þér að halda þér við efnið.

Þegar fólk hættir að reykja eða nota tóbak er það að takast á við tvennt, annars vegar vanann og hins vegar líkamlegan ávana. Hugurinn tengir ákveðnar athafnir eða aðstæður við reykingar og þessar tengingar þarf að rjúfa. Og það getur þú gert, ef þú ert meðvitaður/meðvituð um það.

Ákveddu daginn sem þú ætlar að hætta. Eftir þann dag eru reykingar ekki hluti af lífi þínu. Undirbúðu þig vel, æfðu þig í að vera reyklaus. Í hvert skipti sem þú ætlar að fá þér sígarettu eða tóbak, prófaðu að gera eitthvað annað, t.d. fáðu þér vatnsglas eða sykurlaust tyggjó, hafðu eitthvað fyrir stafni, farðu út að labba, í heita sturtu eða bara eitthvað sem dreifir huganum í bili. Finndu hvað virkar fyrir þig. Búðu til reyklaus svæði, t.d. hættu alfarið að reykja á heimilinu eða í bílnum. Með því að takmarka svæðin sem þú mátt reykja á, munu reykingarnar minnka og það verður þau auðveldara fyrir þig að hætta.

Þú ættir líka að þiggja allan þann stuðning sem þú getur fengið. Þú getur hringt í reyksímann 8006030 og fengið þar ráðgjöf, stuðning og eftirfylgd. Þú getur líka skráð þig á námskeið eða haft samband við þinn lækni eða hjúkrunarfræðing. Þú getur farið á netið og skoðað fræðsluefni eða lesið góða fræðslubæklinga. Þiggðu líka stuðning frá þínum nánustu.

Þú þarft líka að vita af því að það eru til hjálparlyf, s.s. nikótínlyf eða önnur lyf. Þú verður sjálf/sjálfur að gera upp við þig hvort þú vilt nota slík lyf eða ekki. Þú verður að hafa samband við lækninn þinn ef þú hefur hug á að nota nikotínlausu lyfin en upplýsingar um nikótínlyf getur þú fengið í apótekinu eða hjá reyksímanum.

Það er mjög einstaklingsbundið hvort fólk finni fyrir fráhvarfseinkennum. Gott er að þekkja einföld ráð við þeim, s.s. hreyfingu, sem eykur brennslu og örvar þarmahreyfingar, vinnur á streitu, bætir einbeitingu og svefn. Mundu eftir að drekka vel af vatni og borða reglulega, hollan og góðan mat.

Mundu bara eftir því að þetta MUN allt ganga yfir. Það er staðreynd! Líkaminn þarf bara að venjast því að vera án tóbaksins. Þú gætir t.d. hugsað um þetta eins og þetta sé slæm flensa sem gengur yfir.

 

Guðrún Árný Guðmundsdóttir

hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi reyksímans Ráðgjöf í reykbindindi

 

Ef einhverjar spurningar vakna eða ef þú vilt fá frekari stuðning og ráðgjöf þá er þér velkomið að hafa samband við ráðgjafa hjá reyksímanum - s: 8006030


Fyrst birt 11.01.2007

<< Til baka