Trampólín - röng notkun algengasta ástæða slysa

Sjá stærri mynd

Lóan, fyrsti vorboðinn, er komin fyrir nokkru síðan. Einnig má segja að þegar trampólínin fara að sjást í görðum landsins þá veit maður að sumarið nálgast. Börn hoppandi frá morgni til kvölds, hvað er betra? Frábær líkamsþjálfun sem meðal annars þjálfar jafnvægi og samhæfingu hreyfinga auk þess að styrkja vöðva og bæta geð. En því miður eru slys tengd trampólínum alltof algeng og mörg þeirra verða vegna rangrar notkunar trampólínsins.

Algengustu slysin á trampólínum eru beinbrot og áverkar í andliti en áverkar á mænu og innvortis meiðsl eru líka þekkt. Rannsóknir á slysum erlendis hafa sýnt að slysin verða helst hjá börnum á aldrinum 8 til 12 ára og að slys á litlum trampólínum eru jafn algeng og á þeim stóru. Því er full ástæða til þess að setja strangar umgengnisreglur um öll trampólín, sama af hvaða stærð þau eru. Regla númer eitt ætti ætíð að vera sú að aldrei séu fleiri en einn aðili að hoppa í einu. Því fleiri sem eru á trampólíninu þeim mun meiri hætta er á að einhver slasi sig.

  • Farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum við uppsetningu trampólínsins.
  • Virðið þá hámarksþyngd sem gefin er upp fyrir notendur.
  • Staðsetjið trampólínið á grasi eða öðru mjúku undirlagi.
  • Hafið gott pláss í kringum það.
  • Öryggisnet eykur mjög öryggi trampólínsins.
  • Festið trampólínið vel niður.
  • Það eiga aldrei að vera fleiri en einn aðili að hoppa í einu.
  • Fylgist reglulega með ástandi trampólínsins, festingum, gormum, ramma, undirstöðum og að dúkur sé heill og liggi yfir gormunum.

 

Full ástæða er til að hvetja forráðamenn til varkárni í tengslum við trampólínin. Fara þarf vel yfir leiðbeiningar sem fylgja áður en trapólínið er sett upp og ætíð skal virða þá hámarksþyngd notenda sem gefin er upp, á því byggist stöðuleiki trampólínsins. Festa þarf trampólínið vel niður, t.d. með u laga járni sem stingst yfir fæturna og niður í grasið, því annars getur það auðveldlega hvolfst eða tekist á loft á vindasömum dögum en nokkur dæmi eru um að trampólín hafi rúllað eftir götum bæjarins.

Best er að staðsetja trampólínið á grasi en það minnkar líkur á að viðkomandi meiði sig ef hann dettur út fyrir trampólínið. Autt svæði verður að vera undir trampólíninu og að minnsta kosti 2,5 metra radíus í kringum það til að minnka líkur á slysum.

Fylgjast verður með að rammi og undirstöður trampólíns séu í lagi og að dúkur yfir gorma sé heill og að hann liggi vel yfir þá en slæm slys geta orðið ef hoppað er á óvarða gorma. Gormarnir eiga líka að vera heilir og jafn stífir en sú er ekki raunin aukast líkur á að þeir sem nota trampólínið misstígi sig.

Hægt er að kaupa öryggisnet til að setja utan um trampólín og er mælt með því að það sé til staðar. Alltof margir setja fyrir sig kostnaðinn við það að kaupa slíkt net en það kostar minna en trampólínið sjálft, en ef slys verður er kostnaður við slysið fljótur að fara upp í upphæð netsins.

Sigrún A. Þorsteinsdóttir

sviðsstjóri slysavarnasviðs

Slysavarnafélaginu Landsbjörg

 

 


Fyrst birt 10.05.2007

<< Til baka