Er tímabært að kveðja tóbakið?

Sjá stærri mynd

Hvers vegna reykir þú? Tókst þú ígrundaða ákvörðun um að reykja alla ævi þegar þú byrjaðir að fikta við tóbak? Flest reykingafólk svarar þessari spurningu neitandi, en nikótín í tóbaki er afar ávanabindandi efni sem sleppir ekki ljúflega takinu. Flestir sem reykja byrja fyrir 18 ára aldur og á þeim aldri erum við oft upptekin af rómuðum fyrirmyndum og móttækileg fyrir hópþrýstingi. Þess vegna er gott að spyrja sig: Hvers vegna reyki ég enn og við hvaða aðstæður?   

Lesa bæklinginn Hættu fyrir lífið.

Að hætta að reykja - breyting á lífsstíl

Þegar þú ert búin(n) að taka ákvörðun um að hætta að reykja hefur ákveðin hugarfarsbreyting átt sér stað. Sú breyting er nauðsynlegur undanfari þess að geta breytt lífsstílnum til hins betra. Svo er mikilvægt að undirbúa sig vel áður en þú hættir að reykja. Hugurinn stjórnar jú líkamanum og því þarf að byrja á því að virkja hugann áður en tekist er á við líkamlegu fíknina. Fyrst þarf að stilla hugann inn á að hætta að reykja. Þegar þú ert farin(n) að sjá fyrir þér í huganum hvernig þú kemur til með að hætta og hvernig þú munt njóta góðs af því, þá ertu á góðri leið með að vera tilbúin(n) að hætta.

 

Þú getur fengið aðstoð

Sömu aðferðirnar við að hætta að reykja henta ekki öllum og þess vegna er ágætt að margvísleg aðstoð og ráð eru í boði. Hver og einn getur prófað sig áfram til að finna þá aðferð sem hentar best. Flestir sem hafa hætt að reykja gerðu nokkrar tilraunir áður en þeim tókst það endanlega. Því er mikilvægt að gefast ekki upp strax. Einnig er gott að hafa það í huga að allir geta hætt að reykja ef þeir eru fastir fyrir með þá ákvörðun.

Stuðningur við að hætta að reykja hefur reynst mörgum vel og eykur verulega líkurnar á að þér takist að hætta. Það er því æskilegt að nýta sér þau úrræði sem í boði eru. Til dæmis er hægt að hringja í Reyksímann - Ráðgjöf í reykbindindi (s. 800-6030). Reyksíminn býður upp á persónulega ráðgjöf til þeirra sem vilja hætta að reykja eða nota reyklaust tóbak. Áherslan er lögð á hvatningu og stuðning. Ráðgjöfin byggist á reykingasögu og þörfum hvers einstaklings og hægt er að fá sent heim fræðsluefni og eftirfylgd er veitt í formi endurhringinga. Símaþjónustan þjónar öllu landinu og er veitt endurgjaldslaust.

Um miðjan júní verður opnuð ný gagnvirk heimasíða, www.reyklaus.is, þar sem er að finna ýmsan fróðleik um leiðir til reykleysis. Ef þú skráir þig inn á síðuna færðu reglulega póst sem veitir þér stuðning við að hætta að reykja. Á síðunni er einnig hægt að taka þátt í spjalli við aðra sem eru í svipuðum sporum og halda dagbók (undir nafnleynd).

Heilbrigðisstarfsfólk veitir ráðgjöf um leiðir til að hætta að reykja og getur vísað á ýmis úrræði og námskeið í reykleysismeðferð. Sumir kjósa að hætta að reykja með hjálp lyfja sem þá annað hvort innihalda nikótín eða ekki. Lyfjameðferðir geta hjálpað, hvort sem þær eru notaðar einar sér eða sem stuðningur með annarri meðferð. Dæmi um vinsæl lyf eru Champix og Zyban. En síðan eru til önnur nikótínlyf eins og t.d. nikótíntyggjó, plástrar, nefúðar, munnsogstöflur og tungurótartöflur.

Hérna á heimasíðu Lýðheilsustöðvar er einnig að finna upplýsingar um ýmsar leiðir til að hætta að reykja. M.a. er listi yfir aðila og félög sem bjóða upp á námskeið og aðstoð við að hætta að reykja. 

 

Nokkur góð ráð sem gera þér auðveldara að hætta

  • Gerðu skriflegan samning við sjálfa(n) þig um að hætta að reykja.
  • Skipuleggðu fram í tímann að hætta. Það auðveldar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
  • Veldu einhvern tiltölulega rólegan dag til að hætta og haltu þig við hann. Sumum gefst vel að draga úr reykingum smám saman fram að þeim degi.
  • Gott er að ákveða hvernig þú getur brugðist við þegar löngunin grípur þig. T.d. mætti draga djúpt að sér andann nokkrum sinnum, fá sér vatnsglas eða skella sér í stuttan göngutúr.
  • Drekktu vel af vatni, sérstaklega fyrstu dagana eftir að þú hættir.
  • Þú getur notað nikótínlyf eða nikótínlaus lyf til að takast á við mikla tóbakslöngun.
  • Til að byrja með skaltu forðast aðstæður þar sem þú gætir freistast til að reykja. Veitingahús og skemmtistaðir verða reyklausir 1. júní 2007 og það gæti hjálpað.
  • Fylgstu með hvað þú sparar mikla peninga - og njóttu þess að nota þá í annað en tóbak.
  • Þó þú fallir um stundarsakir skaltu halda ótrauð(ur) áfram að reyna að hætta að reykja, því æfingin skapar meistarann.  

 

Hugsaðu jákvætt - þú GETUR hætt!

Gangi þér vel!

 

Bára Sigurjónsdóttir

verkefnisstjóri tóbaksvarna á Lýðheilsustöð

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2007

 

Námskeið:

Tóbaks- og reykleysisnámskeið Krabbameinsfélags Íslands 

Létta leiðin til að hætta að reykja - Pétur Einarsson. Námskeið byggt á „Allen Carr's EasyWay to stop smoking"


Fyrst birt 23.05.2007
Síðast uppfært 06.06.2017

<< Til baka