Bjór er líka áfengi

Hvað flokkast undir áfengi? Samkvæmt 2.gr. áfengislaga er áfengi skilgreint á eftirfarandi hátt: ,,Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda. Efni þau sem sundur má leysa í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika skal fara með sem áfengan drykk."

Í hugum margra eru sterkir/brenndir drykkir og léttvín áfengi, því alkóhólinnihald þessara drykkja er hátt. Bjór inniheldur yfirleitt minna magn vínanda og er því í hugum sumra ekki metinn sem áfengi á borð við léttvín og sterka drykki. Margir telja bjórinn því ekki eins skaðlegan. Það er hins vegar alltaf svo, að áfengi er áfengi, sama af hvaða tegund það er.

Bjórs er gjarnan neytt í tengslum við ákveðna félagslega viðburði eða aðgerðir t.d. við grillið á sumrin eða yfir íþróttaviðburðum í sjónvarpi: ,,. . .eigum við ekki að fá okkur einn eða tvo yfir leiknum?" Sennilega myndi ekki hvarfla að sama aðila sem segir þetta að fá sér einfaldan eða tvöfaldan viskí við sama tækifæri en að öllum líkindum fær hann meira magn alkóhóls í líkamann við það að drekka tvo stóra bjóra en algengt er að alkóhólinnihald í bjór sé um 4-5%.

Áfengi í bjór er líka áfengi

Bjór er líka áfengiOft er talað um áfengiseiningar og er þá átt við fjölda gramma af hreinum vínanda í hverjum drykk. Einfaldur af sterku áfengi inniheldur því svipað eða sama magn alkóhóls og glas af léttvíni eða lítill bjór. Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir að áfengi í bjór er líka áfengi. Tegundin skiptir ekki máli að öðru leyti en því að áfengistegundir leggjast misvel í fólk hvað varðar viðbrögð líkamans og eftirköst.

Áfengi í líkamanum

Áfengi kemst hratt í blóðrásina gegnum meltingarveginn og getur mælst í blóði um það bil 5 mínútum eftir inntöku. Niðurbrot áfengis í líkamanum fer fram í lifrinni sem vinnur úr 90% áfengisins og aðeins lítill hluti skilar sér úr líkamanum með þvagi eða svita. Það tekur lifrina um eina klukkustund að vinna úr hverri drukkinni einingu áfengis. Í þessu sambandi má því benda á að kaffidrykkja og sturta flýta ekki fyrir því að losa áfengi úr líkamanum þótt viðkomandi finnist honum líða betur.

Óhófleg áfengisneysla orsök tugþúsunda dauðatilfella í Evrópu

Í nýrri skýrslu sem skrifuð var fyrir Evrópusambandið kemur fram að óhófleg áfengisneysla leiði með einum eða öðrum hætti til dauða 195 þúsund manns á ári í Evrópusambandsríkjunum. Kostnaðurinn vegna neyslu áfengis birtist víða, meðal annars í heilbrigðiskerfinu, tryggingakerfinu, samfélaginu og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd.

Ungt fólk er nefnt sem hópur í sérstakri áhættu og er áætlað að inna landa Evrópusambandsríkjunum megi rekja 10% dauðsfalla kvenna og 25% dauðsfalla karla í aldurshópnum 15-29 ára til óhóflegrar neyslu áfengis. Þá er áætlað að eitt af hverjum fjórum slysum í umferðinni megi rekja til neyslu áfengis. Þessu til viðbótar látast margir á annan hátt sem rekja má beint til neyslu áfengis m.a vegna óhappa, morða, sjálfsvíga, lifrarsjúkdóma og krabbameins. Auk þessa eru áætlað að um 200.000 tilfelli þunglyndis megi rekja til áfengisneyslu.

Engin venjuleg neysluvara

Það er því ljóst að áfengi er engin venjuleg neysluvara og ætti því ekki að lúta sömu lögmálum og gilda um hefðbundnar neysluvörur. Fullorðnir sem á neyta áfengis ættu því að gæta hófs og vera þess meðvitaðir um leið að þeir eru fyrirmyndir og að neysluvenjur og drykkjusiðir þeirra hafa áhrif á neysluvenjur og siði ungs fólks.

Látum ekki óhóflega áfengisneyslu spilla gleðinni. Förum varlega, gætum hófs og verum þess meðvituð að ekki þarf að hafa áfengi um hönd til að skemmta sér vel.

 

Rafn Jónsson

Verkefnisstjóri í áfengis- og vímuvörnum, Lýðheilsustöð

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2007.

 

 


Fyrst birt 06.07.2007

<< Til baka