Forðumst slys við framkvæmdir heima fyrir

Sumarið er sá tími sem við notum hvað mest til útvistar. Við förum í útilegur, fjallgöngur, hjólum, spilum golf, förum í sund og veiðiferðir svo eitthvað sé nefnt. Margir nýta líka sumartímann til að annast viðhald á húsum sínum og garði, mála, bæði veggi og þök og dytta að því sem farið er að láta á sjá, smíða skjólveggi og palla o.s.frv. Sumir ráðast jafnvel í að byggja sumarbústað. Þegar á heildina er litið má því segja að sumarið sé tími framkvæmda og athafnagleði. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir jákvæðnina sem fylgir ofangreindu þá fjölgar heima- og frítímaslysum verulega yfir sumartímann, enda flestir í fríi á þeim tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysaskrá Íslands voru heima- og frítímaslys 37,8% af skráðum slysum árið 2006 og eru þau með algengustu slysum í öllum aldurshópum. Þess ber þó að geta að ekki eru öll slys skráð í Slysaskrá Íslands.

Það má til sanns vegar færa að slysin gera ekki boð á undan sér, en þrátt fyrir það er ýmislegt hægt að gera til að fyrirbyggja þau. Málið snýst um það hvernig við hegðum okkur við ólíkar aðstæður og við athafnir sem við erum kannski ekki vön.

Þegar taka á til hendinni heima fyrir er nauðsynlegt að lesa vel leiðbeiningarnar sem fylgja þeim tækjum og tólum sem nota skal og jafnframt skal þess gætt að nota viðeigandi öryggisútbúnað. Hættuaðstæður skapast auðveldlega t.d. þegar á að skreppa upp á þak til að laga loftnet eða reka niður nagla.

Til að forðast heima- og frítímaslys er gott að hafa í huga eftirfarandi öryggisatriði þegar hefjast skal handa við umbætur heimavið. Hafa ber í huga að hér er eingöng tæpt á örfáum atriðum.

 

Við notkun á stiga er mikilvægt að:

 • velja réttan stiga út frá þeim aðstæðum sem á að nota hann í
 • lesa og fara eftir leiðbeiningum
 • ganga úr skugga um að stiginn sé heill og nothæfur að hann standi á sléttu og stöðugu undirlagi

 

Þegar farið er upp á þak:

 • þarf að gæta ætíð fyllstu varkárni
 • ef þakið er bratt, nota tvöfaldan stiga eða öryggisbönd
 • veita athygli ef þakið er blautt og hált
 • vera á skóm með sólum sem veita viðnám

 

Þegar garðurinn er sleginn:

 • þekkja vélarbúnað sem er verið að nota, lesa og fara eftir leiðbeiningum
 • aldrei að gera við slátturvélina eða eig eitthvað við hana, nema slökkva á henni fyrst og taka úr sambandi ef um rafmagnsslátturvél er að ræða
 • passa vel upp á að börn séu ekki nálægt slátturvélinni
 • ganga úr skugga um að ekki séu steinar eða aðrir smáhlutir í grasinu sem á að slá. Stórslys getur hlotist af því ef hnífur sláttuvélarinnar grípur þessa hluti og sendir þá frá sér af miklu afli.

 

Þó að heima- og frítímaslys séu algeng þá eru áverkarnir í flestum tilfellum ekki alvarlegir, en þó geta þeir stundum verið mjög alvarlegir og leitt til örkumlunar og jafnvel dauða. Farið því ávallt með gát og forðist að gera vanhugsaða hluti þegar dytta á að hlutum heimafyrir.

Markmið heilbrigðisáætlunar á sviði slysavarna er að slysum og dauðaslysum fækki um 25% á tímabilinu 2001-2010. Eitt af aðalverkefnum slysavarna á Lýðheilsustöð þetta haustið er að skoða nánar orsakir og tegundir heima- og frítímaslysa til að geta haft áfhrif á stefnumótun og tryggja að aðgerðir/forvarnir séu í samræmi við það.

Rósa Þorsteinsdóttir

verkefnisstjóri slysavarna, Lýðheilsustöð


Fyrst birt 19.07.2007

<< Til baka