Öryggi skólabarna í umferðinni

Máltækið segir að góð vísa sé aldrei of oft kveðin, það sama má segja um mikilvægi þess að minna okkur stöðugt á að huga að öryggi barna í umferðinni. Haustið er sá tími þegar bílaumferð eykst verulega og þá þarf að huga sérstaklega að öryggi barna í umferðinni.

Mjög mikilvægt er að allir í umferðinni gæti fyllstu varúðar í nágrenni skólanna - sérstaklega þegar börnin eru að koma í skólann eða yfirgefa hann. Best er að börnin gangi í skólann - þau litlu í fylgd með fullorðnum - allir fá þá góða daglega hreyfingu auk þess sem þannig er dregið verulega úr umferðaþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólanum.

En þurfi að aka börnunum í skólann þá eru hér nokkur hollráð um öryggi þeirra:

Þegar barni er ekið til og frá skóla:

 • Notum ætíð viðeigandi öryggis- og verndarbúnað fyrir barnið í bílnum
 • Gefum okkur góðan tíma - tímaskortur er streituvaldur og getur aukið líkur á óhöppum eða slysum
 • Virðum ætíð hraðamörkin
 • Gætum sérstakrar varúðar þegar ekið er að eða inn á skólalóðina
 • Veljum öruggan stað til að hleypa barninu út úr bílnum, t.d. þar sem ekki þarf að fara yfir götu
 • Veljum öruggan stað fyrir barnið að bíða á þar til það er sótt að skóladegi loknum.

Samkvæmt almennum ráðleggingum ættu börn að hreyfa sig rösklega í a.m.k. 60 mínútur daglega. Þar er bent á miklvægi þess að börn gangi sem oftast í skólann. Að sjálfsögðu þarf að fylgja þeim yngstu þar til þau eru orðin fær um að komast örugg í skólann. Mjög mikilvægt er að foreldrar kanni gönguleiðina í skólann og finni þá leið sem öruggust er fyrir barnið.

Barninu hjálpað að ganga öruggt í skólann:

 • Gefum okkur góðan tíma
 • Höfum í huga þroska og reynslu barnsins
 • Kennum barninu að:
  • horfa til beggja hliða og hlusta eftir bílum
  • líka þurfi að horfa vel í kringum sig á meðan farið er yfir götuna
  • aldrei megi ganga út á götu á milli kyrrstæðra bíla
  • nota alltaf gangbrautir, þar sem þær eru, sérstaklega þar sem gangbrautarvarsla er
  • þýðingu mikilvægra umferðamerkja og umferðaljósanna
  • stoppa alltaf áður en gengið er yfir götu; aldrei að hlaupa út á götuna
  • nota alltaf endurskinsmerki á útifatnað„Göngum í skólann"

Októbermánuður er alþjóðlegur „göngum í skólann" mánuður. Þann 3. október er hápunktur átaksins og allir sem geta eru hvattir til að ganga í skólann þennan dag. Á síðasta ári tóku 40 lönd um víða veröld og milljónir barna þátt í þessu verkefni. Nú er Ísland orðið meðlimur í verkefninu, og verður það kynnt nánar innan skamms, en stefnt er að því að „göngum í skólann" verði árlegur viðburður á Íslandi.

Með verkefninu er m.a.hvatt til aukinnar hreyfingar, börnin verða færari í að ganga á öruggan hátt í skólann og það dregur úr umferð.

Með ósk um gott og slysalaust haust.

Rósa Þorsteinsdóttir

verkefnisstjóri slysavarna, Lýðheilsustöð

 


 


Fyrst birt 12.09.2007

<< Til baka