Konur og áfengi

Áfengis er neytt við fjölmörg tækifæri, í mismiklu magni og við misjafnar aðstæður. Sé þess neytt í hófi eru minni líkur á alvarlegum afleiðingum, hvort sem er andlegum, félagslegum eða líkamlegum. En eins og flestir vita getur áfengi valdið skaða, bæði neytandanum og fólki í umhverfinu. Rannsóknir hafa sýnt að óhófleg neysla áfengis er áhættuþáttur í fjölmörgum sjúkdómum og mörgum þeirra mjög alvarlegum, t.a.m. mörgum tegundum krabbameins.

Áfengisneysla á Íslandi hefur verið að aukast undanfarin ár og samkvæmt íslenskri könnun sem gerð var árið 2004 hafa konur á aldrinum 18-34 ára aukið áfengisneysluna um 28% á tímabilinu 2001 - 2004. Þar kom fram að með aukinni menntun eykst áfengisneysla meðal kvenna en minnkar hjá körlum. Októbermánuður er tileinkaður brjóstakrabbameini og því er viðeigandi að fjalla meðal annars um möguleg áhrif áfengisneyslu á brjóstakrabbamein.

 

Áfengi í líkamanum

Áfengi hefur mismunandi áhrif á kynin og það þykir nægilega sannað að áfengi hefur meiri áhrif á konur en karla. Þær þola u.þ.b. 30% minna af áfengi heldur en karlar, þ.e.a.s. þurfa minna magn til að verða drukknar. Ástæðurnar eru nokkrar - og stundum persónulegar eða félagslegar - en mestu skiptir þó að konur eru yfirleitt minni og léttari en karlar og efnaskiptin eru ekki eins og hjá körlunum. Þá hafa konur minna vatn í líkamanum en karlar en vatnið í líkamanum þynnir út áfengið. Konur hafa einnig minna af þeim efnahvötum sem brjóta niður áfengi. Auk þess að hafa áhrif á myndun brjóstakrabbameins hefur áfengi áhrif á myndun krabbameins í meltingarvegi, allt frá munnholi niður í þarma.

 

Brjóstakrabbamein

Á Íslandi greinast árlega á annað hundrað konur með brjóstakrabbamein. Lífshorfur þeirra hafa batnað mikið en fjöldi nýrra tilfella hefur að sama skapi aukist og samkvæmt útreikningum Krabbameinsskráarinnar getur tíunda hver kona búist við að fá brjóstakrabbamein.

Áfengisneysla getur haft áhrif á myndun brjóstakrabbameins hjá konum og líkurnar aukast í hlutfalli við magn áfengis sem neytt er. Óhófleg neysla á áfengi, þ.e.a.s. meira en tveir drykkir á dag, auka líkurnar á myndun brjóstakrabbameins um 30%. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða bjór, vín eða sterkt áfengi (einn drykkur = einfaldur sterkur drykkur, eitt vínglas eða 33cl af bjór). Áfengi getur einnig haft óbein áhrif á myndun krabbameins því talið er að áfengi hafi áhrif á estrógenmagn hjá konum fyrir breytingarskeiðið sem á sinn hátt getur aukið líkur á myndun brjóstakrabbameins.

 

Meðganga

Það þykir allvel sannað að áfengisneysla á meðgöngu geti haft alvarleg skaðleg áhrif á líkama og heila fósturs. Alvarlegar afleiðingar eru sjaldgæfar en mun algengara er að börn fái væg einkenni, eins og námserfiðleika og hegðunarvandamál. Blóðkerfi barns og móður er samtengt og áfengi á því auðvelda leið í gegnum fylgju og naflastreng. Þegar áfengis er neytt á meðgöngu verður fóstrið fyrir meiri áhrifum en móðirin vegna þess að líffæri þess eru ekki nægilega þroskuð til að brjóta áfengið niður.

 

Rafn Jónsson og Sveinbjörn Kristjánsson

verkefnisstjórar hjá Lýðheilsustöð


Fyrst birt 24.10.2007

<< Til baka