Sundþjálfun og sérfæði

Sjá stærri mynd

Hollt mataræði, reglubundin hreyfing og næg hvíld stuðla að hreysti og vellíðan. Til að fá næga orku þurfa börn og ungmenni þrjár aðalmáltíðir og 2-3 millibita yfir daginn. Mikilvægt er að byrja alla daga með góðum morgunverði sem leggur grunninn fyrir daginn.

Að„æfa" reglulega t.d. eina til tvær klukkustundir þrisvar sinnum í viku að viðbættum keppnishelgum kallar EKKI á sérfæði heldur venjulegan hollan mat.

Borðum hollan mat í tengslum við sundæfingar

Þá daga sem farið er t.d. á sundæfingar er góð venja að fá sér hollan bita 1-2 klukkustundum fyrir æfingu s.s. gróft brauð með áleggi, ferskan ávöxt og mjólkurglas. Jafnmikilvægt er að borða eitthvað fljótlega eftir æfinguna því það minnkar líkurnar á að sælgæti, snakk og gosdrykkir verði fyrir valinu. Því er góð venja að vera með ávöxt í íþróttatöskunni til að fá orku í skrokkinn fljótlega eftir æfingu og borða síðan staðgóða máltíð þegar heim er komið.

Drekkum vatn fyrir sundæfingar, meðan á æfingum stendur og eftir æfingar

Kalt vatn er málið fyrir sundæfingar, meðan á æfingum stendur og eftir æfingar. Sundfólk missir oft mikinn vökva án þess að verða þess vart og því er mikilvægt að drekka meira en þorsti segir til um þar sem vökvatap dregur úr afkastagetu líkamans. Vatn slekkur þorstann og óhætt er að drekka vel af því. Forðast ætti að drekka sykraða svaladrykki, íþróttadrykki, orkudrykki og gosdrykki í tengslum við sundæfingar því sykurinn eykur orku einungis í stutta stund en síðan fellur blóðsykurinn hratt og líkaminn verður orkulaus og þreyttur. Næringargildi sykurs er nánast ekkert og hitaeiningainnihaldið hátt auk þess sem sykurinn skemmir tennurnar. Ef sykur verður of fyrirferðarmikill í fæðunni er ekki rúm fyrir hollan mat en samkvæmt næringarráðleggingum er miðað við að viðbættur sykur sé innan við 10% af hitaeiningaþörfinni. Koffeinið í sumum gosdrykkjum og orkudrykkjum hefur auk þess vatnslosandi áhrif.

Glerungseyðing

Rannsóknir benda til að glerungseyðing sé algengari hjá unglingum sem æfa sund en hjá viðmiðunarhópi. Neysla „súrra drykkja" þ.e. sykraðra svaladrykkja, íþróttadrykkja, orkudrykkja og gosdrykkja í tengslum við sundæfingar er mikil en rotvarnarsýrurnar í sumum gosdrykkjum og orkudrykkjum leysa upp yfirborð tannanna þannig að glerungurinn þynnist og eyðist smám saman. Klórblöndun sundlaugarvatns hefur auk þess mælanleg áhrif en hafa má í huga að hlutfall klórs er lítið í sundlaugarvatni hér á landi þannig að neysluvenjur vega hér þyngra hvað varðar algengi glerungseyðingar.

 

Hólmfríður Guðmundsdóttir

Verkefnisstjóri tannheilsu

Lýðheilsustöð

 


Fyrst birt 21.11.2007

<< Til baka