Hjólaskór - holl skemmtun eða slysagildra?

Hjólaskórnir komu fyrst á markaðinn í Bandaríkjunum árið 2000. Þeir eru mjög vinsælir og hafa selst í milljónatali um allan heim og er Ísland engin undantekning. Þegar vorið er á næsta leiti fer að bera meira á börnum sem nýta sér skóna og hafa gaman af. Hjólaskórnir líta út eins og venjulegir skór en undir hælnum er hjól sem gerir það að verkum að það er bæði hægt að ganga og renna sér á þeim. Skórnir geta flokkast undir línuskauta og skilgreinast þá sem íþrótt.

Það sem einnig gerir þessa skó öðruvísi en aðrar íþróttavörur er að þeir eru seldir bæði í venjulegum búðum og í íþróttabúðum, atriði sem gæti gert þá saklausari en þeir í raun og veru eru. Börn allt niður í 6 ára aldur renna sér á hjólaskónum.

Það er ekki spurning að allt sem hvetur börnin og unglingana til að hreyfa sig er af hinu góða, hvort sem það er á hjóli, hlaupahjóli, hjólabretti, línuskautum eða á hjólaskóm. Þetta eru allt leikir sem eiga það sameiginlegt að vera bæði skemmtilegir og ekki síst góð hreyfing fyrir börnin. Engu að síður fylgja þessum leikjum viss áhætta og það er mikilvægt að hafa öryggisatriðin í huga til að komast hjá og/eða draga úr slysahættu. Eins og foreldrar vita þá eiga börnin að vera með hjálma þegar þau eru á reiðhjólum, brettum eða línuskautum og þá er einnig mikilvægt að vera með öryggishlífar á úlnliðum, olnbogum og hnjám. Það sem kannski margir gera sér ekki grein fyrir er að þetta á við um hjólaskóna líka og mælast framleiðendur skónna eindregið til þess að slíkur öryggisbúnaður sé notaður þegar börnin renna sér á þeim.

Þó svo við höfum ekki nákvæmar tölur hér á Íslandi varðandi slys á börnum á hjólaskóm, þá vitum við að þó nokkur börn hafa fengið bæði heilahristing og beinbrotnað eftir að hafa dottið á hjólaskónum.

Á sjúkrahúsi í Dublin á Írlandi árið 20061 voru 67 börn meðhöndluð á 10 vikum með alvarlega áverka eins og brotna úlnliði, handleggi og ökkla, olnboga sem fóru úr lið og brotna höfuðkúpu. Einnig höfðu sum tognað á akkilesarhæl. Rannsóknin sýndi að slysin gerðust oftast hjá þeim sem voru að læra að nota skóna. Jafnvægið var ekki í lagi og féllu börnin bæði fram og aftur fyrir sig. Einnig voru slysin algeng hjá þeim sem voru orðnir mjög vanir og farnir að taka vissa áhættu.

Margir skólar hér á landi hafa bannað börnunum að koma á hjólaskóm í skólann og einnig hafa verslunarmiðstöðvar gert það sama. Rannsóknir erlendis frá sýna að oft verða árekstrar á milli barnanna og gangandi og þá sérstaklega eldra fólks sem hefur dottið og brotnað við áreksturinn.

Hafa ber í huga að hjólin undir skónum geta ryðgað ef þau blotna. Það veitir meira viðnám og þar með eykst hættan á að detta. Einnig á grjót auðvelt með að festast í hjólunum og af þeim ástæðum ber að varast að vera á grýttum jarðvegi eða í sandi.

Að lokum koma nokkur hollráð

  • Læra undirstöðuatriðin vel með áherslu á hvernig á að stoppa
  • Alltaf að vera með öryggisbúnað: Hjálm, úlnliða-, olnboga- og hnéhlífar
  • Ekki renna þér innan um margmenni
  • Ekki renna þér í umferðinni. Ef þú þarft að fara yfir götu, farðu eftir umferðarreglum og ljósum
  • Veldu slétt undirlag til að renna þér á. Sneiddu hjá því að renna þér á grýttu undirlagi, á sandi eða í vatni
  • Ekki láta lítið barn vera á hjólaskónum án eftirlits

 

Með ósk um öruggt, gott og skemmtilegt sumar.

Rósa Þorsteinsdóttir
verkefnisstjóri slysavarna

 

1 Vioreanu M. et al (2007). Heelys and Street Gliders Injuries: A new type of Pediatric Injury. Pediatrics, 119, 1294-1298


Fyrst birt 09.04.2008

<< Til baka