Tóbakslaus framtíð

Reykingar valda fleiri dauðsföllum hérlendis en nokkur annar lífstílstengdur áhrifaþáttur en á tímabilinu 1995 til 2004 mátti rekja um 18% af dauðsföllum til reykinga. Í fjölda rannsókna kemur fram að flest reykingafólk byrjar að reykja á unglingsárunum og því yngra sem fólk er þegar það byrjar að reykja því erfiðara er að hætta því seinna. Enn fremur hafa komið fram sterkar vísbendingar um að heilsutjón á fullorðinsárum af völdum reykinga aukist eftir því sem einstaklingar byrja fyrr að reykja. Það er því lykilatriði í sambandi við framtíðar heilbrigði þjóðarinnar að fyrirbyggja að ungt fólk byrji að reykja og halda þannig áfram að draga úr skaðsemi reykinga á Íslandi.

Ekki er nokkur vafi á því að veitingastaðir skapa heilsusamlegri aðstæður fyrir starfsfólk og viðskiptavini með reykleysi. Nú sýna nýlegar rannsóknir einnig að reykingarbann á veitinga- og kaffihúsum styður ungt fólk að forðast að byrja að reykja reglulega. Ástæðan er helst sú að með reykleysinu eru mun minni líkur á því að ungu fólki finnist reykingar eðlilegar eða félagslega viðurkenndar. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að því meira sem unglingar ofmeta tíðni reykinga, þ.e. telja að fleiri reykja en raunin er, þeim mun líklegri eru þeir til að reykja sjálfir. Minni sýnileiki reykinga dregur úr slíku ofmati.

 

Reyklausir veitingastaðir vega þungt

Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna okkur að það að eiga foreldri sem reykir eykur töluvert líkurnar á að ungt fólk byrji að reykja sjálft, en mjög nýleg rannsókn frá Michigan í Bandaríkjunum sýnir að reykleysi veitingahúsa hefur mun meiri áhrif en foreldrarnir á það hvort ungt fólk, sem hefur fiktað við reykingar, byrji að reykja reglulega. Þar kemur fram að ungt fólk sem elst upp á svæðum þar sem reykingabann er á veitingahúsum er 40% ólíklegra til færa sig úr fikti yfir í reglulegar reykingar.

Reykingabanni á veitingahúsum hefur verið komið á kopp víða í heiminum, t.d. í Noregi, Írlandi, Nýja Sjálandi og Bretlandi, vegna þess að reykingar hafa slæm áhrif á alla sem anda að sér tóbaksreyk. Þeir sem anda að sér tóbaksreyk annarra en reykja ekki sjálfir eru í meiri hættu á að fá krabbamein og hjartasjúkdóma heldur en þeir sem búa við reykleysi.

 

Reyklaust umhverfi barna

Foreldrar og forráðamenn ættu ávallt að fara á fram á reyklaust umhverfi fyrir börnin sín, hvort sem það er í tengslum við skóla, dagvistun, veitingastaði, vinnustaði og jafnvel heimili ættingja og vina. Ástæður til að forðast tóbaksreyk eru margvíslegar, en í óbeinum reyk eru fleiri en 250 skaðleg efni og um 50 þeirra eru krabbameinsvaldandi (þ.á.m. ammóníak og blásýra). Óbeinar reykingar eru sérstaklega hættulegar fyrir börn og auka hættuna á andarteppu, eyrnabólgu, lungnakvefi og lungnabólgu. Það skiptir því sköpum að gera umhverfi reyklaus, sérstaklega þar sem börn eru tíðir gestir.

Til að aftra ungu fólki frá því að byrja að reykja er vænlegt að ...

  • Hafa skýrar reglur og viðurlög varðandi tóbaksnotkun. Þessi þáttur vegur einna þyngst til að skýra af hverju ungt fólk byrji ekki að reykja.
  • Ungt fólk viti hver raunveruleg útbreiðsla reykinga er, þ.e. að reykingar séu ekki eitthvað sem „allir gera". Að meðaltali telja krakkar í 10. bekk á Íslandi sem reykja ekki að um 30% jafnaldra sinna reyki daglega. Af þeim sem reykja daglega ofmeta hinsvegar níu af hverjum tíu hlutfallið og telja hlutfallið vera að meðaltali 47%. Raunin er hinsvegar sú að aðeins um 11% af 10. bekkingum reykir daglega (ESPAD, 2007).
  • Segja frá skammtíma áhrifum reykinga, svo sem andfýlu, minna þol, lykt af fötum og meiri hættu að fá bólur og gular tennur.
  • Leggja áherslu á að hætt sé við því að verða háður nikótíninu í sígarettum á nokkrum dögum eftir fyrstu notkun.

 

Hinn árlegi Alþjóðlegi tóbakslausi dagur (eða „World no tobacco day") er haldinn laugardaginn 31. maí og í ár er þemað „tóbakslaus framtíð". Styðjum ungt fólk með því að nýta umræðuna til að draga enn frekar úr tóbaksneyslu á Íslandi.

 

Héðinn Svarfdal Björnsson

Verkefnisstjóri fræðslumála hjá Lýðheilsustöð

Birt í Morgunblaðinu 28. maí 2008


Fyrst birt 10.06.2008

<< Til baka