Á ferð og flugi

Á sumrin fjölgar þeim til muna sem ferðast um landið. Landsmenn fara af stað og við bætist fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum. Frítímaslysum fjölgar í kjölfarið ásamt alvarlegum umferðarslysum en sumartíminn er oftar en ekki sá tími sem flestir látast í umferðinni, þegar aðstæður eru hvað bestar, og hefur hraði þar mikið að segja. Hraði er undir hverjum og einum bílstjóra kominn með þeim áhættum sem honum fylgja. Það sama má segja um beltanotkun, öll vitum við hverju þau bjarga, samt eru allt of margir sem nota þau ekki. Skrítið.

Góðar ferðavenjur er gott að temja sér áður en lagt er af stað í ferðalag, þær stuðla að því að við komum heil heim. Þegar farið er í gönguferð er mikilvægt að kynna sér vel svæðið sem fara á um. Öruggast er að velja stikaðar leiðir og nauðsynlegt að hafa að lágmarki kort og áttavita. Gott er að temja sér það að alltaf sé einhver fremst og aftast í hópnum sem ber ábyrgðina á því að allir haldi hópinn og enginn týnist. Skjólgóður fatnaður er mikilvægur þar sem veður getur breyst fljótt og orkuríkt nesti og drykkir þurfa alltaf að vera með í för.

Ef farið er um hverasvæði er mikilvægt að fylgja stígum og fara ekki út fyrir þá. Brunar á hverasvæðum eru ótrúlega tíðir þó svo það liggi í augum uppi að vatnið sé a.m.k. 100°C heitt og snerting við það brenni. Vissulega gera börnin sér ekki eins vel grein fyrir því og því þarf að passa vel upp á þau eins og alltaf þegar þau eru í nýju umhverfi. Börnum finnst skemmtilegt að kanna, prófa og þreifa sig áfram og því er nauðsynlegt að fylgja þeim vel eftir og fræða þau um svæði sem þau þekkja ekki.

Hellar eru víða um landið og margir hverjir lítt kannaðir af ferðamönnum. Ef fara á í hellaferð er nauðsynlegt að láta einhvern vita af ferðum sínum og gott getur verið að skilja eitthvað áberandi eftir fyrir utan hellinn. Það að fara einn í hellaferð er ekki skynsamlegt þar sem ekkert símasamband er í hellum og ef eitthvað kemur uppá er góður ferðafélagi það eina sem hægt er að treysta á. Það er yfirleitt kalt í hellum og oft blautt og því er skjólgóður fatnaður, hanskar, góðir skór, hjálmur, ljós og jafnvel auka ljós, góður búnaður í hellaferð.

Þegar dvalið er á tjaldsvæði er mikilvægt að muna að tjaldsvæðið er leiksvæði barna og akstur þar mjög varasamur. Ef þörf er á að bakka með eftirvagn á tjaldsvæði er reglan sú að fullorðinn einstaklingur fer út úr bílnum og fylgist með að enginn sé fyrir aftan.

Notkun á gasi og kolagrillum er mjög algeng á tjaldsvæðum. Ekki ætti að nota gas innandyra nema gas- eða súrefnisskynjari sé til staðar. Gasgrill á eingöngu að nota utandyra og mikilvægt er að kveikja strax upp í því eftir að skrúfað hefur verið frá gasinu. Ekki er ráðlagt að hreyfa gaskútinn þegar grillið er í notkun þar sem eldurinn getur blossað upp við hreyfinguna. Ef skipta þarf um eldsneytiskút þarf að gera það utandyra fjarri opnum eldi. Prímus er oft notaður til hitagjafar í tjöldum en mikilvægt er að vera meðvitaður um að sofna ekki út frá honum.

Hálendið heillar marga bæði til göngu og aksturs. Öruggast er að ferðast ekki einn eða einbíla ef haldið er til fjalla. Margir af þeim sem fara um hálendið eru vanbúnir til hálendisferða. Þeir þekkja hvorki staðhætti né aðstæður og átta sig ekki á því hversu mikill munur er á aðstæðum og veðri á láglendi og hálendi. Hálendisvegirnir eru oft grýttir og erfiðir yfirferðar og töluverða reynslu og kunnáttu þarf til að aka þá. Akstur yfir ár reynist mörgum erfiður farartálmi en mikilvægt er að vera vel útbúinn og hafa þekkingu og reynslu áður en ekið er yfir ár. Góð regla er að vaða ána áður en ekið er yfir hana, það skal þó aldrei gera án þess að vera í línu. Ef ekki er lagt í að vaða ána á ekki heldur að aka yfir hana. Að jafnaði er minnst í jökulám á morgnana og almenna reglan er að vera í fjórhjóladrifinu og lágadrifinu sé það til staðar og aka ákveðið yfir í fyrsta gír en samt ekki greitt.

Á hálendinu er stopult farsímasamband þó svo það hafi batnað nokkuð á þessu ári. Mikilvægt er því að gera aðrar ráðstafanir eins og að hafa gervihnattarsíma eða tetrastöðvar til að geta náð í Neyðarlínuna ef þörf er á. Mikilvægt er að kynna sér ástand vega og veðurspá áður en lagt er af stað og alltaf skal láta vita af ferðum sínum og skilja eftir ferðaáætlun sé því við komið.

Í sumar verða björgunarsveitir staðsettar á fjórum stöðum á hálendinu: Hveravöllum, Nýjadal, Landmannalaugum og Drekagili frá 27. júní til 10. ágúst, ferðamönnum til fræðslu og aðstoðar. Sveitirnar keyra út frá þessum stöðum. Ef ferðamenn þurfa á aðstoð þeirra að halda þá hafa þeir samband við Neyðarlínuna í síma 112.

Sigrún A. Þorsteinsdóttir

Sviðstjóri slysavarnasviðs
Slysavarnafélaginu Landsbjörg


Fyrst birt 09.07.2008

<< Til baka