Foreldrar, unglingar og Verslunarmannahelgin

Verslunarmannahelgin er ein stærsta útihátíðahelgin á Íslandi. Fjölmargt og fjölbreytt skemmtanahald freistar ungs fólks og margt þarf að hafa í huga. Margir foreldrar muna eflaust eftir að hafa á sínum unglingsárum staðið frammi fyrir svipuðum aðstæðum og sóst eftir því að fara á útihátíðir um þessa helgi og muna hugsanlega eftir rökræðum við sína foreldra um leyfi til að fara í Húsafell eða á þjóðhátíð í Eyjum. Nú hefur staðan snúist við, unga fólkið sem var er nú orðið foreldrar sjálfir, sem þurfa að ákveða hvort leyfa eigi sínum unglingi að fara með jafnöldrum á útihátíð um verslunarmannahelgina. Í því tilefni er vert að hafa í huga að tímarnir hafa breyst. Sjálfræðisaldurinn hefur færst úr 16 árum í 18 ár og umhverfið er að margra mati harðara þegar litið er til áfengis- og vímuefnaneyslu. Flestir foreldrar telja sig vel geta treyst unglingnum til að fara á útihátíð og flestir unglingar standa undir því trausti. En þær aðstæður, sem reynslan sýnir að geta komið upp, geta hins vegar reynst unglingum þungbærar og afleiðingarnar alvarlegar.

 

Misskilningur að betra sé að foreldrar kaupi áfengið

Sumir foreldrar telja það skárri kost að kaupa áfengi fyrir unglinga og reyna þannig að hafa áhrif á hvaða og hversu mikið áfengi unglingurinn drekkur. Þetta er mikill miskilningur. Rannsóknir frá Norðurlöndunum sýna að áfengið sem foreldrar útvega unglingum er oft hrein viðbót við það áfengi sem unglingurinn hefur skaffað sér sjálfur. Með því að kaupa áfengi fyrir unglinginn hefur foreldri gefið sitt leyfi fyrir áfengisneyslunni. Síðan ber að hafa í huga að dómgreind unglingsins skerðist við áfengisneyslu og honum er því hættara við að drekka ennþá meira en hann ætlaði sér.

 

Samvera - forvörn sem virkar

Enginn vafi leikur á að foreldrar gegna stóru hlutverki í lífi barna sinna; þeir hafa bæði erfðafræðileg og félagsleg áhrif á hegðun barna sinna. Áhrifamáttur foreldra minnkar á unglinsárunum og áhrifamáttur vina eykst sem því nemur. Niðurstöður rannsókna sýna að samvera foreldra og barna dregur úr líkum á því að unglingar neyti ólöglegra vímuefna og seinkar því að unglingar fari að nota áfengi. Því er hægt að segja að samverustundir foreldra og barna sé forvörn sem virkar.

 

Hér eru nokkur atriði fyrir foreldra/forráðamenn að hafa í huga:

  • Unglingar yngri en 18 ára eru á ábyrgð foreldra sinna og ættu því ekki að fara á útihátíð án þess að einhver ábyrgur fullorðinn sé með í för. Fáið símanúmer hjá þeim sem ætlar með þeim.
  • Hafið samband við foreldra þeirra sem unglingurinn ætlar með og komið ykkur saman um þær reglur sem þið viljið að unglingarnir fylgi.
  • Gangið úr skugga um að unglingurinn sé vel útbúinn fyrir útilegu.
  • Látið unglinginn hafa símanúmer hjá ættingjum og vinum sem hann getur hringt í ef eitthvað kemur upp á og ekki næst í ykkur.
  • Nærvera foreldra er mikilvæg forvörn. Foreldrar geta gist í nágrenni útihátíðar og gott er að hafa samband við unglinginn sem oftast í síma eða með því að hittast á svæðinu.
  • Ræðið við unglinginn um að þiggja aldrei far hjá neinum sem er undir áhrifum áfengis.
  • Útvegið unglingum ekki áfengi. Unglingur undir áhrifum áfengis er í meiri hættu á að lenda í vandræðum. Þegar foreldrar útvega unglingum áfengi hafa þeir samþykkt drykkju þeirra og líklegt er að þeir drekki meira.
  • Lögbrot er að selja, veita eða afhenda þeim áfengi sem eru yngri en 20 ára.

 

Sveinbjörn Kristjánsson
verkefnisstjóri,
Embætti landlæknis


Fyrst birt 30.07.2008

<< Til baka