Göngum í skólann

Sjá stærri mynd

Nú er sá tími ársins þegar nemendur á öllum aldri mæta til starfa í skólum landsins eftir sumarfrí. Að ýmsu er að hyggja í undirbúningnum og þá er meðal annars gott að huga að ferðamáta til og frá skóla. 

Hressandi morgunleikfimi

Líkt og kemur fram í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um hreyfingu eru ganga og hjólreiðar ein einfaldasta leiðin til að flétta hreyfingu inn í sitt daglega líf. Kostir þess eru fjölmargir: hressandi útiveran auðveldar nemendum að vakna og halda einbeitingu í byrjun dags og hreinsa hugann og slaka á í lok dags. Regluleg hreyfing, líkt og ganga eða hjólreiðar, getur þannig ekki aðeins minnkað líkurnar á fjölmörgum sjúkdómum heldur veitir umfram allt bæði líkamlegan og andlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni og hvílast betur. Séu vegalengdir miklar eru almenningsvagnar betri valkostur en einkabíllinn til að auka hreyfingu, draga úr umferðarþunga og stuðla að heilnæmara lofti.

 

 • Göngum eða hjólum í skólann
 • Hjálpum börnunum að velja öruggustu leiðina
 • Fylgjum yngstu börnunum
 • Notum endurskinsmerki og annan öryggisbúnað
 • Veljum þægilegan klæðnað í samræmi við veður
 • Vörumst of þungar skólatöskur
 • „Göngum í skólann" hefst 10. september 
 •  


  Öryggið í fyrirrúmi

  Eðli málsins samkvæmt vilja foreldrar að börnin séu eins örugg í umferðinni og mögulegt er. Yngstu nemendurnir fá umferðarfræðslu í skólanum en auk þess er mikilvægt að foreldrarnir fylgi þeim fyrstu skrefin, finni öruggustu gönguleiðina á milli heimilis og skóla og minni á umferðarreglurnar. Þar sem það er mögulegt geta foreldrar tekið sig saman og skipst á að sjá um „göngustrætó" til og frá skóla. Allir gangandi og hjólandi vegfarendur ættu að nota endurskinsmerki og þeir síðarnefndu reiðhjólahjálm og ljós. Með því að velja annan ferðamáta en einkabílinn má draga úr umferðarþunga í kringum skóla á álagstímum og auka öryggi þeirra barna sem koma gangandi eða hjólandi í skólann. Þannig er einnig lagður grunnur að heilsusamlegu ferðavenjum ungs fólks til framtíðar. 

  Klæðnaður og skólataska

  Reynslan hefur kennt mörgum að veðrið virðist oft verra þegar litið er út um glugga en það er í raun og veru. Með því að klæða sig í samræmi við veður er hægt að ganga eða hjóla í skólann flesta daga ársins. Unga fólkið er þá einnig betur í stakk búið að njóta þess að stunda ýmiss konar útileiki og aðra hreyfingu í frímínútum. Auk þess sem skór og annar fatnaður á að veita skjól og leyfa eðlilegar hreyfingar er gott að huga að skólatöskunni. Þannig má stuðla að betri líkamsbeitingu við gönguna og koma í veg fyrir óþarfa stoðkerfisvandamál við töskuburðinn. Árlega stendur Iðjuþjálfafélag Íslands fyrir Skólatöskudögunum þar sem nemendur, foreldar og kennara fá fræðslu um hvernig er best að stilla, raða í og velja nýja skólatösku. Einnig er meðal annars bent á að þyngd skólatöskunnar á ekki að vera meiri en 10% af þyngd barnsins.

  Göngum í skólann mánuðurinn

  Ísland tekur nú þátt í alþjóðlega Göngum í skólann verkefninu annað árið í röð. Það mun hefjast 10. september og lýkur formlega með alþjóðlega „Göngum í skólann deginum" 8. október. Verkefninu er m.a.ætlað að hvetja til meiri hreyfingar, auka færni barna til að ganga í skólann og bæta aðstæður þeirra við gönguferðina í skólann. Iðjuþjálfafélag Íslands hefur gert leiðbeiningar um skólatöskur. Nánari upplýsingar um Göngum í skólann má finna á www.gongumiskolann.is

   

  Gígja Gunnarsdóttir
  verkefnisstjóri hreyfingar  Fyrst birt 27.08.2008

  << Til baka