Hegðunarbreyting hefst með góðum áformum

Heilsunnar vegna íhuga margir að breyta lifnaðarháttum sínum til hins betra, og á það t.a.m. við um reykingar. En það að hætta að reykja eða breyta einhverri annarri hegðun er ekki atburður sem á sér stað í eitt skipti heldur er það ferli - eða röð af atburðum - sem tekur tíma. Hér er í stórum dráttum farið yfir það sem gerist þegar fólk breytir um hegðun og er hegðunarbreytingunni lýst í 5 þrepum. Viltu hætta að reykja?

Viðhorf til hegðunarbreytingar miðast við í hvaða þrepi hver og einn er staddur. Í hverju þrepi notar hver og einn mismunandi aðferðir til að komast á næsta þrep, og fer það eftir á hvaða þrepi viðkomandi er á hvaða leiðir er vænlegastar til árangurs. 

 

Foríhugun

Hér eru þeir sem ætla ekki að hætta að reykja á næstunni. Það getur verið vegna þess að þeir þekkja ekki afleiðingar reykinga eða vanmeta hættuna. Þeir forðast að lesa, ræða eða hugsa um skaðsemi tóbaksnotkunar. Hugsanlega hafa þeir oft reynt að hætta en mistekist og misst trúna á að geta hætt. Almenn umræða um reykingar og skaðsemina er heppilegasta leiðin til að fólk í þessu þrepi byrji að íhuga það að hætta.

 

Íhugun

Hér eru þeir sem ætla að hætta að reykja - en ekki alveg strax. Þeir vita um ókostina en sjá samt kosti þess að reykja. Togstreitan þarna á milli gerir fólk oft tvíbent í afstöðu sinni, svo það getur fest lengi í þessu þrepi. Það er ekki sérlega mótækilegt fyrir ábendingum, enda ekki alveg sannfært um nauðsyn þess að hætta. Til að taka ákvörðun um að hætta að reykja þá þarf að sjá hversu margt kostirnir hafa framyfir ókostina.

 

Undirbúningur

Hér eru þeir staddir sem ætla að hætta að reykja í nánustu framtíð eða innan mánaðar. Eru farnir að undirbúa sig og sennilega búnir að ákveða daginn sem á að hætta. Þeir eru tilbúnir að ræða við heilbrigðisstarfsfólk um ætlun sína eða hafa leitað annarra leiða. Hér er fólk tilbúið til að taka við ábendingum og fræðslu.

 

Framkvæmd

Þeir sem hafa hætt að reykja á síðustu 6 mánuðum eru á þessu þrepi. Þeir hafa mikið fyrir því að reykja ekki - enda eru hættan á bakslagi mikil. Fólk á þessu þrepi er sannfært um að ókostir þess að reykja yfirvinni kostina. Hér er mikilvægt að forðast aðstæður sem auka á hættuna á að fara að reykja aftur og leggja áherslu á hegðun sem styrkir ákvörðunina eins og meiri hreyfingu, hollari mat og aðra heilsueflingu.

 

Viðhald

Þeir sem eru hér hafa ekki reykt í yfir 6 mánuði. Leggja þarf áherslu á að koma í veg fyrir bakslag en hér er fólk mun sjálfsöruggara. Það hugsar lítið um reykingar. Litið er á þetta þrep sem lokasigur hegðunarbreytingarinnar en hafa ber í huga að reykingarstopp er lífslöng barátta, sem getur orðið auðveldari eða erfiðari eftir umhverfi og hugarástandi hverju sinni. Einnig þarf að hafa í huga að algengt er að fólk byrji aftur að reykja, sem algengt er í þessu ferli og því eðlilegra er að tala um bakslag frekar en fall þegar fólk byrjar aftur. Ferlið getur þá hafist að nýju og vonandi gengur betur núna.

Sveinbjörn Kristjánsson
verkefnisstjóri fræðslumála

 

Ráðgjöf í reykbindindi s: 800 60 30www.8006030.is 


Fyrst birt 07.01.2009

<< Til baka