Ánægjuleg frí - án slysa

Að ýmsu þarf að huga þegar farið er í frí á ókunnan stað. Best er að kynna sér aðstæður sem fyrst eftir að komið er á nýja staðinn, hvort sem um er að ræða heimili vinafólks, orlofshús í eigu stéttarfélaga eða sumarbústað í einkaeign.

Íslendingar eru duglegir að nota orlofshús í fríum sínum allt árið um kring þó svo að sumarið sé vissulega vinsælasti tíminn. Mikilvægt er að huga að aðstæðum á nýjum stað, innandyra og utan, því slys geta auðveldlega eyðilegt gott frí.

Stéttarfélagið BSRB lét gera viðhorfskönnun meðal dvalargesta í orlofshúsum sínum árið 2007, þar sem m.a. var bent á að ástandið á húsunum væri misjafnlega gott og sum orðin frekar lúin. Þetta gefur góða ástæðu til að vera meðvitaður um slysagildrur barna sem geta leynst í slíkum húsum. Einkum eykur það líkurnar á slysum ef húsið og umhverfi þess er ekki eitthvað sem barnið þekkir.

 

Hér eru nokkur atriði sem gott er að horfa eftir. Listinn er ekki tæmandi en getur hjálpað til.

 • Eru hreinsiefni eða lyf staðsett þannig að lítil börn nái ekki í þau?
 • Eru hitastýrð blöndunartæki á handlaugum og sturtu? Ef ekki, gætið þá ýtrustu varúðar þegar nota á heita vatnið.
 • Er svefnloft öruggt m.t.t. fallvarna? Ef ekki, leyfið þá börnum ekki að vera einum uppi á svefnloftinu.
 • Eru öryggishlið á stiga uppi og niðri? Ef ekki, byrgið þá stigann niðri og leyfið ekki litlum börnum að leika uppi.
 • Eru kojurnar með fallvörn? Ef ekki, og barn verður að sofa í rúminu, er hægt að notast við bækur eða annað til að setja á milli dýnu og rúms (rúmfjalar) eða setja dýnuna á gólfið.
 • Eru kojubotnarnir traustir og heilir? Ef ekki er betra að hafa dýnuna á gólfinu.
 • Eru rúllugardínur með böndum sem hanga niður? Ef svo er vefjið snúrunum upp til að börn geti ekki leikið sér með þær.

 

Fyrir utan húsið geta einnig leynst ýmsar hættur og hafa ber í huga að börnin eru oftar en ekki í umhverfi sem þau þekkja ekki.

 • Er lok með læsingu á heita pottinum? Ef ekki, skiljið þá aldrei vatn eftir í pottinum.
 • Er hitastillinn í pottinum í lagi? Gætið ávallt að hitastiginu áður en farið er í pottinn.
 • Er pallurinn traustur og heill, einnig tröppur og handrið?
 • Er aðkoma að húsinu greið, gangstéttir sléttar, góð lýsing?
 • Er leiksvæðið öruggt eða liggja t.d. lausir beittir hlutir þar?
 • Eru leiktækin óskemmd og undirlag mjúkt ef barnið skyldi detta?

 

Besta hollráðið er að vera stöðugt vakandi fyrir þeim hættum sem gætu leynst bæði inni i orlofshúsinu og í umhverfinu. Ef eitthvað er ekki í lagi þá er eindregið hvatt til að láta eigendur húsanna vita af því.

Með ósk um ánægjulegar stundir í orlofshúsum.

Rósa Þorsteinsdóttir
Verkefnisstjóri slysavarna á Lýðheilsustöð


Fyrst birt 08.04.2009

<< Til baka