Gildi hreyfingar fyrir einstaklinga og samfélög

Sjá stærri mynd

Í erfiðu árferði eins og nú ríkir er eðlilegt að fólk staldri við og endurskoði forgangsröðina. Á sama tíma er gott að hafa í huga að það er sjaldan mikilvægara að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan sinni en einmitt þegar ýmsar áskoranir steðja að. Þannig erum við betur í stakk búin til að mæta þeim og yfirvinna þær.

Hreyfing í ljósi vísindanna

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) er regluleg hreyfing svo jákvætt atferli, sem býr yfir svo miklum tækifærum fyrir lýðheilsu og svo lítilli áhættu, að hún verðskuldar að vera útgangspunktur í allri stefnumótun er varðar lýðheilsu. Af hverju?

Á síðustu áratugum hefur staða þekkingar á tengslum hreyfingar og mismunandi heilsufarsútkoma stöðugt verið að styrkjast. Í töflunni má sjá dæmi um niðurstöður umfangsmikillar rannsóknarskýrslu sem var nýlega gefin út í Bandaríkjunum.

Dæmi um gildi ráðlagðrar hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan

Börn og unglingar
 • Betra þol og vöðvastyrkur
 • Betri beinheilsa
 • Stuðlar að heilsusamlegra holdafari
 • Minni einkenni þunglyndis
Fullorðnir og roskið fólk
 • Minni hætta á ótímabærum dauða
 • Minni hætta á kransæðasjúkdómum, heilablóðfalli og háþrýstingi
 • Minni hætta á sykursýki af tegund 2
 • Stuðlar að heilsusamlegra holdafari
 • Minni hætta á blóðfitubrenglun
 • Minni hætta á sumum krabbameinum t.d. ristilkrabbameini og brjóstakrabbameini
 • Betra þol og vöðvastyrkur
 • Betri færni, vitsmunaleg geta og minni hætta á föllum og mjaðmabrotum hjá rosknu fólki
 • Aukin beinþéttni
 • Minni einkenni þunglyndis
 • Betri svefn

 

Eins og sjá má minnkar hreyfing hættuna á fjölmörgum sjúkdómum og eykur umfram allt líkurnar á að fólk lifi lengur sjálfstæðu lífi við betri lífsgæði. Þannig getur regluleg hreyfing ekki aðeins bætt hag einstaklinga heldur einnig fjölskyldna þeirra, vinnuveitenda og samfélagsins í heild.

Ráðlagður dagskammtur af hreyfingu?

Markmið almennra ráðlegginga um hreyfingu, líkt og Lýðheilsustöð gefur út, er að stuðla að því að sem flestir landsmenn á öllum aldri hreyfi sig nóg til að vernda og bæta heilsuna. Fullorðnir ættu að stunda röska hreyfingu í minnst 30 mínútur og börn í minnst 60 mínútur á dag. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. Aukinni hreyfingu fylgir aukinn ávinningur fyrir heilsu og vellíðan.

Veljum heilsusamlegan ferðamáta

Til að takmarka kyrrsetu og auka hreyfingu er einfaldast og ódýrast að flétta hreyfingu sem mest saman við daglegt líf. Allir ættu að staldra reglulega við, meta hvað þeir hreyfa sig mikið og gera síðan áætlun um úrbætur ef þörf er á. Hversu mikið hreyfi ég mig í tengslum við vinnu/skóla? Hversu mikið hreyfi ég mig í frítímanum? En í tengslum við heimilisverk? Hvernig ferðast ég á milli staða? Með því að velja t.d. ferðamáta sem felur í sér hreyfingu, hjóla eða ganga, má með einföldum hætti uppfylla lágmarksráðleggingar um hreyfingu, stuðla að heilnæmara lofti og ekki síst spara kostnað fyrir heimilið og samfélagið í heild. Þátttaka í Hjólað í vinnuna, sem hefst 6. maí n.k. er tilvalin leið til að taka upp heilsusamlegri ferðamáta og styðja vinnufélagana til að gera slíkt hið sama.

Hreyfing veitir líkamlegan og andlegan styrk til að takast á við áskoranir daglegs lífs og hjálpar okkur að hvílast betur. Það er því ekki að ástæðulausu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur útnefnt 10. maí ár hvert alþjóðadag hreyfingar. Látum alla daga vera daga hreyfingar og annarra hollra lífsvenja. Það margborgar sig. 

Gígja Gunnarsdóttir
verkefnisstjóri hreyfingar

 


Fyrst birt 06.05.2009

<< Til baka