Framtíð landsins og forvarnir

Sjá stærri mynd

Í nýlegri rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga kemur fram að ef viðkomandi byrjar ekki að reykja fyrir tvítugsaldurinn þá eru mjög miklar líkur - eða 73% - á því að hann reyki aldrei, miðað við reynslu 18-79 ára núlifandi Íslendinga[1].

Forvarnir hefjast heima

Fátt er eins mikilvægt í forvörnum gegn tóbaksnotkun ungs fólks eins og það að foreldrar setji börnum sínum skýr mörk um tóbaksnotkun. Til dæmis um að þeir muni ekki sætta sig við að börnin byrji að reykja eða nota annað tóbak. Færni barna í að bregðast við áreiti í umhverfinu, eins og félagsþrýstingi, ræður úrslitum um hvernig þeim gengur að takast á við þessi áhrif. Það að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd, sjálfstraust og færni í samskiptum, ákvarðanatöku og úrlausn vandamála, gerir börnin fær í flestan sjó og stuðlar að almennu heilbrigði þeirra og vellíðan í lífinu, s.s. að velja hollan mat, stunda reglulega hreyfingu, hafna tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum.

Mikilvægi fyrirmynda

Áhrifamáttur fyrirmynda er mikill. Foreldrar og kennarar eru í sterkri stöðu til að hafa áhrif á viðhorf og hegðun ungs fólks. Það er útbreiddur misskilningur meðal ungs fólks að,,allir reyki" og að reykingar séu þar af leiðandi viðurkenndar af samfélaginu. Hið rétta er að einungis 15,4% fólks á aldrinum 15 - 89 ára reykja daglega hér á landi[2].

Reykingar eru nátengdar sjálfsmynd og félagslegri hegðun ungmenna. Hugafar unglinga sem byrja að reykja snýr oft að því að passa inn í hópinn eða tilheyra ákveðnum hópi. Fyrir þeim eru langtímaáhrif af reykingum á heilsuna afar fjarlægt umhugsunarefni og engan veginn til þess fallið að duga sem rök fyrir því að þau eigi að láta tóbakið eiga sig. Þeir líta jafnvel á reykingar sínar sem stundargaman sem þeir ætla ekkert endilega að stunda til langframa. Þeir telja sér trú um að þeir geti auðveldlega hætt hvenær sem er og gera sér ekki grein fyrir hversu vanabindandi reykingar eru og hversu erfitt getur reynst að hætta síðar meir, þegar þá langar til þess.

 

Aðgengi

Samkvæmt tóbaksvarnalögunum er börnum yngra en 18 ára ekki heimilt að kaupa tóbak. Kannanir sýna að það er talsverður misbrestur á að farið sé eftir þessum lögum hér á landi. Ef útsölustaðir tóbaks selja börnum undir 18 ára tóbak ber að hafa samband við heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæðis. Í reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum er skýrt kveðið á um að reykingar eru ekki leyfðar á stöðum sem ætlaðir eru börnum og unglingum. Mjög mikilvægt er að þessu lögum sé framfylgt[3].

 

Leiðir í forvörnum sem virka

1. Foreldrar setji skýr mörk um tóbaksnotkun

2. Takmarkað aðgengi að tóbaki

3. Tilkynna brot á lögum um sölu á tóbaki til ungs fólks - heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæðis

4. Tóbaksvarnalögunum framfylgt

5. Virk tóbaksvarnastefna í skólum

 

Lýðheilsustöð hvetur alla skóla landsins til að vera með virka heilsustefnu þar sem sérstaklega er kveðið á um tóbaksvarnir. Markmið slíkrar stefnu er að leggja skýrar línur um tóbaksnotkun í skólum. Skólar, sem vinna að tóbaksvörnum á virkan hátt, leggja þannig grunn að góðri heilsu nemenda sinna um ókomna framtíð. Betur má ef duga skal.

 

Bára Sigurjónsdóttir,
sérfræðingur í barnahjúkrun, MSc,
verkefnisstjóri tóbaksvarna, Lýðheilsustöð

 

--------------------------------------------------------------------------------


[1] Heilsa og líðan Íslendinga 2007, óbirt úrvinnsla úr gögnum rannsóknarinnar.

[2] Capacent- Gallup, 2009

[3] Reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum. Heilbrigðisráðuneytið, 2007.

 


Fyrst birt 17.12.2009

<< Til baka