Öruggt samfélag

Hvernig samfélag er öruggt samfélag og hvað er hægt að gera til að gera samfélag öruggt til að búa í? Margt kemur upp í hugann þegar slík spurning er borin fram. Við viljum t.d. að börnin okkar geti leikið sér á öruggum leikvöllum, að öryggismál skólanna séu í lagi og að þar sé unnið gegn einelti. Við viljum að við það að verða gamall/gömul í samfélaginu finni maður fyrir öryggi, t.d. að við getum verið örugg þegar við erum að hreyfa okkur utandyra m.a. vegna þess að í göngu- og gatnakerfinu sé tekið tillit til okkar. Við viljum að börnum og unglingum í samfélaginu sé gert auðvelt að ástunda heilbrigt líferni og að allt sé gert til að koma í veg fyrir að þau byrji að reykja, drekka eða nota önnur fíkniefni, svo fá dæmi séu nefnd.

Skilningur og þátttaka

Staðreyndin er að slys og ofbeldi eru þriðja algengasta dánarorsök í Evrópu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, telur þetta alvarlega ógn við efnahagslega og félagslega framþróun í heiminum. Til að bregðast við þessu hefur stofnunin m.a. beitt sér fyrir því að nærsamfélög skilgreini sig sem Örugg samfélög og grípi til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr hættunni á slysum og ofbeldi. 

Öruggt samfélag getur verið af hvaða stærð eða gerð sem er, borg, bær eða hreppur, en einnig hverfi innan borgar. Tengslin á milli íbúa, stofnana og fyrirtækja eru gjarnan sterk og oft mjög náin í nærsamfélaginu, sem er mikilvægt í öllu forvarnarstarfi. Einnig tekst oft að virkja fólk í nærsamfélaginu til verka sem ekki er hægt að ná fram á stærri svæðum. 

Til að koma á og ná árangri með öruggt samfélag þurfa þeir sem stjórna að kalla saman alla þessa aðila í samfélaginu og sameiginlega er svo farið yfir atriði sem fólk telur mikilvægast að séu í góðu lagi og finna úrlausnir vegna þeirra sem þarf að laga. Það væri síðan í höndum þeirra sem stjórna að skipuleggja verkefnið innan samfélagsins og sjá til þess að íbúar, og aðrir í samfélaginu, geri sér grein fyrir mikilvægi slysa- og ofbeldisvarna. Þetta er leið til að fá alla í samfélaginu til að vilja taka virkan og viðvarandi þátt í því að skapa gott og öruggt samfélag og mörg Örugg samfélög hafa náð góðum árangri í slysa- og ofbeldisvörnum. Hver sem er í samfélaginu getur óskað eftir því við stjórnvöld samfélagsins að farið sé í aðgerðir til að gera samfélagið öruggara. 

Til að auðvelda samfélögum að gerast öruggt samfélag hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sett fram sex viðmið sem samfélög geta nýtt sér við að greina sína stöðu:

  1. Innra skipulag um öruggt samfélag er byggt á samstarfi við hagsmunaaðila um framgang öryggis í samfélaginu og stýrt af hópi fulltrúa allra helstu þátttakenda.
  2. Varanlegar langtímaáætlanir eru gerðar, þar sem tekið er á málefnum beggja kynja og allra hópa, svæða og aðstæðna.
  3. Sérstakar áætlanir gerðar til að efla öryggi skilgreindra áhættuhópa í samfélaginu, sem og áætlanir fyrir varasama staði.
  4. Fastar verklagsreglur eru um skráningu slysa og annarra líkamsmeiðsla, orsakir þeirra og tíðni.
  5. Reglur eru um mat aðgerðaáætlana, framkvæmd þeirra og afleiðingar breytinga sem gerðar eru.
  6. Viðvarandi þátttaka er í samstarfi Öruggra samfélaga, bæði innanlands og utan.

Fram til ársins 2009 höfðu 181 samfélög víðsvegar um heiminn hlotið formlega útnefningu stofnunarinnar sem Öruggt samfélag og annar eins fjöldi er að undirbúa og bíða eftir útnefningu.

Öruggt samfélag - bæklingur

Rósa Þorsteinsdóttir

verkefnisstjóri slysavarna, Lýðheilsustöð

 

 


Fyrst birt 30.04.2010

<< Til baka