12.12.22

Tilkynningar um rekstur fjarheilbrigðisþjónustu

Embætti landlæknis vekur athygli á eftirfarandi í tengslum við tilkynningar um rekstur heilbrigðisþjónustu og umsóknir um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu:

Rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. fjarheilbrigðisþjónustu, ber að uppfylla faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu sbr. lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lög nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu og reglugerð nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur. Að auki gilda Fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu (fjarheilbrigðiskerfi).

Að mati embættis landlæknis getur fjarheilbrigðisþjónusta verið mikilvæg viðbót við hefðbundna heilbrigðisþjónustu, einkum þegar horft er til þess að auka og jafna aðgengi að henni. Embætti landlæknis fékk talsverða reynslu í að meta og samþykkja tilkynningar um fyrirhugaðan rekstur fjarheilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri COVID-19.

Í ljósi þeirrar reynslu og í samræmi við eftirlitshlutverk embættis landlæknis, er þess nú óskað að með tilkynningu um fyrirhugaðan rekstur til landlæknis, sem felur í sér veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, fylgi rökstuðningur sem sýnir fram á réttmæti notkunar fjarheilbrigðisþjónustu í stað nærþjónustu. Þá ber að tilgreina forsendur fyrir notkun fjarþjónustu, afmörkun hennar, innihald, sjúklingaval, fyrirkomulag, hvernig gæði þjónustu verði tryggð o.þ.h. Einnig skal lýsa tæknilegum kröfum og hvernig öryggi sjúklinga sé tryggt við aðgengi þeirra að þjónustunni, sbr. ofangreind fyrirmæli. Þegar um er að ræða fjarþjónustu sem er nýjung innan viðkomandi heilbrigðisgreinar er rétt að leggja fram gögn, ef til eru, um rannsóknir eða úttektir sem styðja við notkun fjarheilbrigðisþjónustu innan greinarinnar. Tilgangurinn með því að óska eftir framangreindum gögnum er að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.

Ofangreindum gögnum og lýsingum ber að framvísa samhliða nýrri umsókn um fjarheilbrigðisþjónustu og bætast við þau gögn sem á eyðublaði er tilgreint að fylgja skuli umsókninni, sjá hér: Umsókn um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu.

Rekstur fjarþjónustu sem þegar hefur hlotið staðfestingu þarf ekki að tilkynna að nýju sé unnt að mæta ofangreindum kröfum að mati rekstraraðila. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni um meiri háttar breytingar á starfsemi/þjónustu. Við tilkynningu um breytingar gilda ofangreind skilyrði um rökstuðning fyrir fjarheilbrigðisþjónustunni.

<< Til baka