09.12.22

Gjaldtaka vegna umsókna um starfs- og sérfræðileyfi

Í tilefni af fréttaflutningi vegna niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins frá 2. nóvember 2022 er varðar gjaldtöku embættis landlæknis í tengslum við umsóknir um starfs- og sérfræðileyfi telur embættið nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri.

Gjald er tekið fyrir útgáfu starfs- og sérfræðileyfa á grundvelli 10. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs. Í 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, eins og henni var breytt með lögum nr. 43/2014, er heimild til að innheimta sérstakt gjald til viðbótar því gjaldi fyrir hvers konar afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Þar á meðal er heimilt að innheimta gjald fyrir þýðingu gagna, mat umsagnaraðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns, yfirferð og mat gagna og aðra umsýslu, vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi. Líkt og rakið er í tilvitnaðri niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins var gjaldtakan útfærð í gjaldskrá nr. 257/2014 og hefur því gilt allt frá árinu 2014. Þá segir jafnframt í niðurstöðu ráðuneytisins að aðeins sé heimilt að innheimta framangreint gjald hafi námi verið lokið í EES-ríki (öðru en Íslandi) eða ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi.

Embætti landlæknis ber í mörgum tilfellum skylda til að senda umsóknir um starfs- og sérfræðileyfi til umsagnar viðeigandi menntastofnana samkvæmt reglugerðum heilbrigðisstéttanna. Sú skylda er óháð því hvar umsækjandi hefur lagt stund á nám sitt og getur átt við um þá sem lært hafa hérlendis. Enn fremur bendir embættið á að ekki hefur verið innheimt sérstakt gjald fyrir yfirferð eða umsýslu embættisins vegna umsókna um starfs- og/eða sérfræðileyfi heldur hefur gjaldið, sem umsækjendur hafa greitt, runnið alfarið til umsagnaraðila embættisins, sem eru viðeigandi menntastofnanir, t.d Háskóli Íslands.

Embættið vinnur nú að því að taka saman upplýsingar um greiðslur umsækjenda vegna umsagna um starfsleyfi og sérfræðileyfi, þ.e. þeirra sem lagt hafa stund á nám sitt hér á landi. Sú vinna er umfangsmikil og flókin og ljóst er að hún mun taka þó nokkurn tíma. Embættið mun að sjálfsögðu hraða vinnslu málsins eins og kostur er og birta frekari upplýsingar þegar þær liggja fyrir. Í kjölfarið verður haft samband við þá sem eiga rétt á endurgreiðslu.

Nánari upplýsingar veitir:

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis

kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka