29.11.22

Vegna umfjöllunar um umframdauðsföll

Í alþjóðlegri birtingu evrópsku hagstofunnar (Eurostat) er gefið til kynna að fjöldi andláta á Íslandi hafi verið 21,5% fleiri í september 2022 heldur en að meðaltali í sama mánuði árin 2016–2019 (sbr. 21,5% umframdauðsföll, sjá hér). Mánaðarlegar tölur á vef stofnunarinnar byggja á vikulegum dánartölum sem Hagstofa Íslands miðlar fyrir Íslands hönd.

Evrópska hagstofan hefur því ekki undir höndum tölur um fjölda látinna eftir mánuðum og áætlar því mánaðarlegan fjölda út frá vikutölum, en vikur skarast gjarnan við mánaðarmót. Þar að auki beitir stofnunin aðferðum til að vigta gögnin. Vísbendingar eru um að þær aðferðir hækki hlutfall umframdauðsfalla úr hófi fyrir septembermánuð á Íslandi. Ábendingar hafa verið sendar um þetta til Eurostat í samstarfi við Hagstofu Íslands.

Með aðferðum sínum áætlar stofnunin 226 dauðsföll á Íslandi í september 2022, þegar þau voru í raun 199. Ef reiknað er út frá þeirri tölu (199), miðað við meðaltal septembermánaðar árin 2016-2019 (186,5), eru umframdauðsföll um 6,7% (199/186,5).

Embætti landlæknis hefur í umfjöllun sinni um umframdauðsföll á Íslandi (nú síðast hér) lagt áherslu á að nota umreiknaðar tölur út frá íbúafjölda. Slíkir útreikningar gefa enn fremur til kynna að engin aukning hafi verið á fjölda dauðsfalla í september (52,9 á 100.000 íbúa), heldur hafi þau verið svipuð og að meðaltali í september umrædd viðmiðunarár 2016–2019 (54,2 á 100.000 íbúa).

Nánari upplýsingar veitir:

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis

kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka