29.09.22

Vegna umfjöllunar um Heilsuveru

Vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag vill embætti landlæknis koma því á framfæri að embættið gerir sér fulla grein fyrir því að fyrirspurnir úr Heilsuveru eru að valda læknum á heilsugæslustöðvum miklu álagi.

Vegna þessa hafa ýmsar breytingar verið gerðar á ferli fyrirspurna og er sú vinna enn í gangi. Í heimsfaraldri COVID-19 var almenningi ráðlagt að mæta ekki á heilsugæslustöðvar og bent á að hafa samband í netspjalli eða með því að senda fyrirspurnir úr Heilsuveru. Fór þá stór hluti vinnutíma lækna í að svara fyrirspurnum en eftir að starfsemi heilsugæslustöðva fór í fullan gang hefur fjöldi fyrirspurna ekki minnkað og álag þar með aukist.

Það er hins vegar trú embættisins að rafræn samskipti við almenning geti í framtíðinni létt undir með heimilislæknum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.
kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka