24.08.22

Athugasemdir vegna fréttaflutnings um höfðun dómsmáls

Vegna fréttar á mbl.is að kvöldi 22. ágúst vill embætti landlæknis koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Það er rangt að embætti landlæknis sé að stefna borgurum þessa lands fyrir dómstóla. Landlæknir hefur stefnt fyrirtæki/lögaðila sem kærði embættið fyrir kærunefnd útboðsmála og það einungis til að fá úrskurð kærunefndar útboðsmála felldan úr gildi. Fyrirtækinu mátti vera ljóst að þessi gæti orðið raunin því ekki er unnt að stefna kærunefndinni sjálfri til ógildingar á úrskurðum eins og fram kom í fréttatilkynningu landlæknis.

Forsvarsmaður fyrirtækisins Kara Connect fullyrti að embætti landlæknis hafi ekkert boðið út í 30 ár og vilji ekki bjóða út. Þetta er rangt. Embættið auglýsir útboð þegar það er skylt samkvæmt lögum eða hagkvæmt. Sem dæmi hefur embættið boðið út hýsingu kerfa sinna undanfarin ár og er nýlokið útboði vegna hýsingar og þjónustu innri kerfa embættisins. Embættið hefur boðið út kerfi fyrir skráningu óvæntra atvika í heilbrigðiskerfinu og bakenda miðlægs lyfjakorts. Jafnframt er unnið að undirbúningi útboða fyrir fleiri lausnir. Embætti landlæknis er auk þess aðili að rammasamningum ríkisins og kaupir inn samkvæmt þeim.

Eitt af þeim útboðum sem langt eru komin í undirbúningi er útboð fjarviðtalslausnar. Árið 2019 hóf embættið tilraunaverkefni þar sem fengin var fjarviðtalslausn frá Sensa ehf. til prófunar og hún samþætt inn í sjúkraskrárkerfið Sögu og heilbrigðisgáttina Heilsuveru. Alltaf stóð til að fara með það verkefni í útboð og vinnur embættið nú að því útboði. Vert er að benda á að það er einmitt verkefnið sem Kara Connect ehf. kærði upphaflega til kærunefndar útboðsmála áður en fyrirtækið jók við kæru sína.

Hið tæknilega umhverfi heilbrigðiskerfisins á Íslandi er flókið og umfangsmikið. Um er að ræða margslungið samspil margra tölvukerfa sem eru flest í eigu einkafyrirtækja sem hið opinbera hefur keypt afnotarétt af yfir mjög langt tímabil. Á því tímabili hafa ýmsar útgáfur af lögum um opinber innkaup verið í gildi og sum kerfin jafnvel keypt fyrir gildistöku fyrstu laga um opinber innkaup.

Þeir samningar sem eru í gildi falla ekki sjálfkrafa úr gildi við nýja lagasetningu enda gilda lög almennt ekki afturvirkt. Kostnaður við það að kaupa nýja samræmda sjúkraskrá var metinn árið 2012 og var þá áætlaður 12,5 milljarðar kr. Miðað við reynslu annarra landa síðustu árin við kaup á nýjum kerfum er líklegt að sá kostnaður sé vanmetinn. Hingað til hefur ekki fengist fjármagn af þessari stærðargráðu til málaflokksins og hefur embættið því þurft að halda áfram þróun þeirra kerfa sem þegar hafa verið keypt.

Í tilvitnaðri frétt er ekki farið rétt með þær upphæðir sem embætti landlæknis notar í rafrænar lausnir. Heildarútgjöld til málaflokksins síðustu 8 ár hafa verið um 2,6 milljarðar kr. Það eru allar greiðslur til allra birgja, fyrir alla þróun, leyfisgjöld, þjónustu og rekstur. Ekki er um að ræða tugi milljarða eins og haldið var fram.

Ekki er heldur rétt að tilkynning hafi fyrst birst á heimasíðu embættisins áður en stefnur voru birtar aðilum. Lögmaður fyrirtækisins tók við stefnu kl. rúmlega 9 þann 22. ágúst en fréttatilkynning landlæknis var birt um kl. 10.30. Lögmaður fyrirtækisins hafði verið látinn vita af stefnunni í hádeginu deginum áður og fengið upplýsingar um að stefna væri til skoðunar fimmtudaginn 18. ágúst.

Embætti landlæknis hefur lagt áherslu á að byggja upp örugga innviði fyrir rafræna heilbrigðisþjónustu til hagsbóta fyrir veitendur og notendur heilbrigðisþjónustu. Þeir innviðir nýtast öllum aðilum sem vinna að þróun rafrænna heilbrigðislausna, nýsköpunarfyrirtækjum sem öðrum. Embættið telur sig hafa farið að lögum um opinber innkaup við þá uppbyggingu. Fái úrskurður úrskurðarnefndarinnar að standa er óljóst hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir örugga innviði rafrænna heilbrigðislausna og hvaða aukna kostnað það kann að hafa í för með sér. Því er nauðsynlegt að dómstólar dæmi um þau atriði sem embættið telur umdeilanleg í úrskurðinum.

 

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.
kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka