27.07.22

Undanþágulyfið Theralene innkallað

Lyfjastofnun hefur ákveðið að innkalla undanþágulyfið Theralene. Innköllunin nær til lyfjadreifingarfyrirtækja, apóteka og sjúklinga. Lyfið er mixtúra/dropar og inniheldur alímemazín 40 mg/ml í 30 ml flösku.

Ástæða innköllunarinnar er sú að fyrirmæli lækna um skammtastærðir lyfsins samanborið við sprautu sem fylgir lyfinu, geta verið misvísandi. Þá er merking á sprautu sem fylgir lyfinu ekki í samræmi við fylgiseðil. Þessar misvísandi upplýsingar hafa og geta leitt til ofskömmtunar lyfsins með tilheyrandi eitrunaráhrifum. Lyfið er m.a. notað við svefntruflunum barna og fullorðinna.

Lyfjastofnun hefur haft samband við öll apótek sem hafa afhent lyfið og þau beðin um að hafa samband við þá einstaklinga sem fengið hafa lyfið afhent. Þeim sem hafa fengið lyfið afhent er eindregið ráðlagt að skila pakkningunni í næsta apótek.

Nánar má lesa um innköllunina á heimasíðu Lyfjastofnunar.

<< Til baka