24.05.22

Aukin útbreiðsla apabólu (monkeypox) í Evrópu

Þann 22. maí 2022 hafði apabóla verið staðfest hjá 59 einstaklingum í níu löndum í Evrópu (Portúgal, Spáni, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi) og að auki voru 10 grunaðir um að vera sýktir. Einnig hefur sýkingin greinst í löndum utan Evrópu eins og Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Ísrael. Líklegt er því að smit séu útbreiddari en núverandi tölur sýna.

Af fyrirliggjandi faraldsfræðilegum upplýsingum er ljóst að flest smitin hafa orðið á milli manna en ekki frá dýrum í menn og þá við náið samneyti eins og kynmök í mörgum tilfellum.

Líklegt verður að teljast að apabóla muni berast til Íslands á næstunni og því þurfum við að vera sem best undirbúin. Undibúningur okkar felst í að auka vitund almennings og heilbrigðisstarfsmanna um sjúkdóminn, tryggja hraða og örugga greiningu hans, beita einangrun og sóttkví eins og við á og gefa ráðlegginar um fyrirbyggjandi aðgerðir.

Til að minnka líkur á að apabóla berist til Íslands og að frekari dreifing verði innanlands, vill sóttvarnalæknir vekja athygli almennings á eftirfarandi:

  • Forðist náin samneyti við ókunnuga á ferðalagi erlendis þ.m.t. kynmök.
  • Ef einstaklingar sem hafa verið á ferðalagi erlendis fá sjúkdómseinkenni sem bent geta til apabólu (sjá fréttatilkynningu sóttvarnalæknis frá 20.5.2022) er þeim bent á að fara í einangrun og hafa samband við heilsugæsluna símleiðis.
  • Þeir sem eru sýktir þurfa að halda a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá öðrum og forðast að deila fatnaði, handklæðum og rúmfötum með öðrum þar sem að smit getur borist á milli manna á þann hátt. Smitaðir einstaklingar ættu einnig að forðast samneyti við dýr á meðan þeir eru smitandi. Fólk er smitandi þar til að síðustu blöðrur á húð hafa þornað en það getur tekið 2–3 vikur.

Á þessari stundu eru ekki tiltæk hér á landi bóluefni eða veirulyf gegn sýkingunni en í samvinnu við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) er unnið að því að kanna gagnsemi ákveðinna veirulyfja og bóluefna.

Á vegum sóttvarnalæknis er verið að vinna að gerð leiðbeininga fyrir almenning og heilbrigðisstarfsmenn um sýkingavarnir til að lágmarka áhættu á smiti milli manna.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka