29.04.22

Hættustig almannavarna vegna COVID-19 fært niður á óvissustig

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur ákveðið að færa hættustig almannavarna vegna COVID-19 niður á óvissustig.

Ástæðan fyrir þessari afléttingu er sú, að staða COVID-19 á Íslandi er nú góð. Daglega greinast nú tæplega eitt hundrað manns opinberlega með COVID-19 þó líklegt sé að fleiri séu að smitast. Einnig er álag á heilbrigðisstofnanir nú mun minna en áður var en nú liggja níu sjúklingar inni á Landspítala vegna COVID-19 og þar af eru sex með virkt smit en enginn er á gjörgæsludeild.

Þessari góðu stöðu má þakka útbreiddu ónæmi í samfélaginu bæði vegna góðrar þátttöku landsmanna í bólusetningum og vegna útbreiddra smita. Á næstu dögum verða birtar niðurstöður úr rannsókn sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar á mótefnamælingum landsmanna sem munu gefa góðar vísbendingar um hversu stór hluti þjóðarinnar hefur raunverulega smitast af COVID-19.

Þó að staða COVID-19 sé nú góð hér á landi þá er sjúkdómurinn enn til staðar víðsvegar í heiminum en nú er talið að einungis rúmlega helmingur jarðarbúa hafi smitast. Á meðan að svo er, þá þurfum við hér á Íslandi að vera á varðbergi gagnvart nýjum afbrigðum veirunnar og einnig þurfum við að fylgjast vel með hversu lengi ónæmið, sem við höfum nú náð, gegn COVID-19 mun endast.

Sóttvarnalæknir

 

<< Til baka