22.03.22

Breytt verklag við útgáfu almennra lækningaleyfa

Breytt verklag varðar þá sem lagt hafa stund á læknisfræði í öðru EES-ríki en ekki lokið tilskildum kröfum þess lands skv. III. kafla og V. viðauka tilskipunar 2005/36/EB, eða VII. viðauka við EES-samninginn, svo sem starfsþjálfunartíma. Frá og með deginum í dag munu þeir eiga kost á því að sækja um almennt lækningaleyfi hér á landi og fá nám sitt metið.

Matið lýtur að sambærileika náms umsækjanda og grunnnáms í læknisfræði við Háskóla Íslands. Slíkar umsóknir verða sendar Læknadeild Háskóla Íslands til umsagnar. Ef nám umsækjanda telst sambærilegt við grunnnám í læknisfræði við Háskóla Íslands þá uppfyllir umsækjandi skilyrði 3. gr. reglugerðar nr. 467/2015 fyrir veitingu almenns lækningaleyfis og laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012.

Slíkt lækningaleyfi veitir ekki rétt til sjálfkrafa viðurkenningar innan EES og gildir slíkt leyfi aðeins hér á landi.

Þá bendir embætti landlæknis á að sá læknir sem getur ekki lagt fram öll vottorð og skírteini, sem tilgreind eru í V. viðauka tilskipunar 2005/36/EB, til þess að geta notið sjálfkrafa viðurkenningar á grunnmenntun í læknisfræði, getur ekki fengið sérfræðileyfi hér á landi sem nýtur sjálfkrafa viðurkenningar innan EES, sbr. 25. gr. tilskipunarinnar. Óski viðkomandi eftir því að sérfræðileyfi sitt gildi einnig innan EES þarf að liggja fyrir staðfesting á að lokið sé tilskilinni starfsþjálfun skv. V. viðauka tilskipunarinnar.

Af framangreindu leiðir að embætti landlæknis myndi ekki gefa út vottorð á grundvelli slíks sérfræðileyfis, sem staðfestir að menntun viðkomandi sé í samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/36/EB.


Samandregið hefur framangreind breyting í för með sér að þeir, sem lagt hafa stund á læknisfræði í öðrum EES-ríkjum en uppfylla ekki tilskildar kröfur skv. III. kafla og V. viðauka tilskipunar 2005/36/EB, eða VII. viðauka við EES-samninginn:

  • eiga kost á því að sækja um almennt lækningaleyfi hér á landi og láta meta nám sitt.
  • geta fengið almennt lækningaleyfi, ef námið telst sambærilegt við grunnnám í læknisfræði við Háskóla Íslands en
  • lækningaleyfið gildir aðeins á Íslandi og veitir viðkomandi ekki rétt til sjálfkrafa viðurkenningar innan EES og
  • getur slíkt leyfi ekki orðið grunnur að viðurkenningu sérfræðileyfis sem njóta myndi sjálfkrafa viðurkenningar innan EES.

Nánari upplýsingar um veitingu starfsleyfa til lækna

<< Til baka