17.03.22

Inflúensa lætur á sér kræla

Undanfarnar vikur hefur verið stígandi í fjölda inflúensugreininga hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala, líklegt er að eiginlegur faraldur sé yfirvofandi en útilokað að halda því fram með vissu. Álag vegna COVID-19 er nú mikið á heilbrigðisstofnunum og full ástæða til að hindra eins og hægt er að inflúensufaraldur verði útbreiddur næstu vikurnar.

Bólusetning er mikilvæg leið til að draga úr alvarleika inflúensuveikinda, sérstaklega hjá áhættuhópum sem eru margir hinir sömu og áhættuhópar m.t.t. COVID-19. Því er rétt að minna á að bóluefni gegn inflúensu er til í landinu og geta heilsugæslur og aðrir sem bólusetja gegn inflúensu pantað það hjá Distica meðan birgðir endast eða út maí.

Æskilegt er að staðfesta greininguna hjá þeim sem leita sér læknisaðstoðar með inflúensulík einkenni þegar meðferð með Tamiflu kemur til greina, sérstaklega hjá einstaklingum með áhættuþætti og heimilisfólki einstaklinga með áhættuþætti til að draga úr hættu á alvarlegum veikindum í þeim hópi.

Einstaklingsbundnar sóttvarnir sem við þekkjum orðið vel m.t.t. COVID-19 (handhreinsun, grímur, mæta ekki til vinnu eða í fjölmenni með einkenni) draga einnig úr dreifingu og smithættu vegna inflúensu.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka